Náttúrulega 3

67 Náttúrulega 3 │ 3. kafli Varmaorka er orkan sem felst í hreyfingu sameinda í efni. Því meiri hiti sem er í efni því meiri hreyfing er á sameindunum. Sameindir sem eru á mikilli hreyfingu rekast á hver aðra og efni sem hitnar þenst út. Þegar við hitum eitthvað erum við þó ekki að búa til orku heldur að breyta orku í varmaorku eða flytja varmaorkuna frá einum hlut til annars. Þegar við kveikjum á eldavél og sjóðum vatn erum við að breyta raforku í varmaorku í hellunni og færa varmann í gegnum helluna og pottinn í vatnið. Þegar vatnið er orðið nægilega heitt helst það ekki lengur saman og skiptir um ham og verður gufa. Mikilvægt ferli í sumum tegundum rafmagnsframleiðslu er að framleiða gufu til þess að breyta varmaorku í hreyfiorku. Til að stöðva bíl þurfa bremsurnar í bílnum að breyta allri hreyfiorkunni í annað orkuform. Í venjulegum bremsum breytist hreyfiorkan að mestu í varmaorku. Rafmagns- og tvinnbílar geta hins vegar breytt hreyfiorku bílsins í raforku með því að láta dekkin á bílnum snúa rafali þegar bremsað er. Með því geta þeir endurheimt hluta af orkunni sem myndi annars tapast í önnur form sem nýtast okkur ekki. Tvinnbílar eru bílar sem ganga fyrir tvenns konar orku. Oft er það olía sem er þá bensín eða dísel annars vegar og rafmagn hins vegar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=