Náttúrulega 3

53 Náttúrulega 3 │ 2. kafli það þarf ekki að skilgreina kynhneigð sína fyrir öðrum nema maður vilji. Þrátt fyrir að flestir finni fyrir þessum tilfinningum, hvort sem það er nú þegar eða seinna á lífsleiðinni er alltaf hópur fólks sem upplifir þær ekki. Sá hópur upplifir sig stundum utangátta vegna þess að ástin spilar svo stórt hlutverk í lífi flestra annarra. Þessi upplifun á líka fullan rétt á sér og það er vel hægt að mynda góð vinasambönd þó ástin sé ekki með í spilinu. Við þroskumst mishratt og verðum tilbúin að prófa mismunandi hluti á mismunandi tímum. Sumir eru mikið að spá í ástina á grunnskólaaldri og aðrir fara ekki að huga að ástinni fyrr en miklu seinna. Á einhverjum tímapunkti gæti þér fundist eins og allir séu búnir að kyssa einhvern eða byrjaðir í sambandi. Það er þó alls ekki þannig og það er mikilvægt að gefa sér tíma og ákveða hvernig þú vilt hafa hlutina. Svo skiptir auðvitað miklu máli að hafa kynnst réttu manneskjunni. Mikilvægt er að muna að þrátt fyrir að aðrir séu að gera eitthvað þá þarft þú ekki að gera slíkt hið sama nema þú viljir. Þú stýrir þínu eigin lífi og líkama. Ef einhver er að ýta á þig að taka þátt í einhverju sem þú vilt ekki er þinn réttur að setja mörk og segja nei. Góð samskipti skipta miklu máli, að segja hvað þú villt og hvað þú vilt ekki. Að sama skapi þarf að virða mörk annarra og ekki beita fólk þrýstingi að gera eitthvað sem það vill ekki. HÉR ERU NOKKUR ORÐ SEM SKILGREINA KYNHNEIGÐ: Gagnkynhneigð: verða eingöngu skotin í einstaklingum af hinu kyninu. Samkynhneigð: verða eingöngu skotin í einstaklingum af sama kyni. Tvíkynhneigð: verða skotin í einstaklingum af fleiri en einu kyni. Pankynhneigð: hrífst af persónu óháð kyni. Eikynhneigð: verður aldrei eða sjaldan skotið í öðru fólki. Til eru mörg form af kynhneigð og listinn því ekki tæmandi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=