Náttúrulega 3

49 Náttúrulega 3 │ 2. kafli Koparlykkjan minnkar líkur á að sáðfrumur komist að egginu og kemur í veg fyrir að frjóvgað egg festi sig þar. Hún inniheldur engin hormón svo hormónastarfsemi er óbreytt. Hormónalykkjan virkar eins en hinsvegar inniheldur hún hormón sem kemur í veg fyrir egglos. Lykkjan er oftast T laga og er komið fyrir í legi af lækni. Hún hentar best konum sem hafa átt börn. Lykkjan dugar í nokkur ár en læknir getur fjarlægt hana hvenær sem óskað er eftir því. Hormónastafurinn er um 4 cm langur og er komið fyrir undir húð í handlegg kvenna. Hann inniheldur hormón sem kemur í veg fyrir egglos og virkar í um það bil þrjú ár. Hægt er að taka hann úr fyrr sé óskað eftir því. Einnig er hægt að fá hormónasprautu á 3 mánaða fresti sem virkar á svipaðan hátt og stafurinn. Algengt er að breytingar verði á blæðingum, sumum konum blæðir ekkert en öðrum minna og óreglulega en það er þó mismunandi. Ófrjósemisaðgerð er hugsuð sem varanleg getnaðarvörn. Hjá körlum er sáðrás klippt og henni lokað og þá fara sáðfrumur ekki í sáðvökvann. Hjá konum er lokað fyrir eggjaleiðara þannig að egg- og sáðfruma mætist ekki. Hormónahringurinn er plasthringur sem kona getur komið fyrir sjálf í leggöngum eftir blæðingar. Hann er látinn vera þar í 3 vikur og svo tekinn úr í viku en þá koma tíðablæðingar. Nýjum hring er síðan komið fyrir. Hringurinn virkar á svipaðan hátt og pillan en hann inniheldur hormón sem koma í veg fyrir egglos. Hann inniheldur þó minna magn hormóna og hefur því minni aukaverkanir. Til er hormónaplástur sem virkar á svipaðan hátt, hver plástur er settur á húð og dugar í viku. Þrír plástrar eru settir í röð og svo kemur ein plástralaus vika.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=