43 Náttúrulega 3 │ 2. kafli Ekki er eðlilegt að verkir séu það miklir að ekki sé hægt að fara í skóla og hitta vini. Verkir sem eru svo slæmir eru tilefni til að leita til læknis. Ef sáðfrumur komast upp í legið og þaðan í eggjaleiðarann getur ein sáðfruma frjóvgað eggið. Eggið lifir aðeins í 12–24 klst eftir egglos og þarf að frjóvgast á þeim tíma en sæði getur lifað inni í leginu eða eggjaleiðaranum í allt að fimm daga. Þegar egg frjóvgast fer það að skipta sér í fleiri frumur, fyrst tvær, næst fjórar, svo átta og svo fleiri og fleiri. Þessi frumuklumpur kallast fósturvísir og þegar hann festir sig við legvegginn verður konan barnshafandi (ólétt). Frumurnar halda áfram að skipta sér og hver fruma fær ákveðið hlutverk og með tímanum fara þær að líkjast agnarlítilli mannveru. Meðganga er um það bil 9 mánaða löng og algeng fæðingarþyngd er á bilinu 3–4 kg en börn geta einnig fæðst bæði léttari og þyngri. Legið er frekar lítið líffæri eða um 8 cm á lengd og 5 cm á breidd en hefur þann eiginleika að geta teygst margfalt á meðgöngu. Fyrir utan barnið (eða börnin) þarf legið líka að rúma fylgju og legvatn. Fylgja er líffæri sem myndast á meðgöngu, hún tengir saman blóðrás fósturs og færir næringu og súrefni um naflastreng sem liggur frá fylgjunni og að kvið fóstursins. Þegar barnið er fullþroskað fæðist það í gegnum leggöngin sem víkka út til að barnið geti fæðst. Stundum fæðast börn með keisarafæðingu en þá er gerður skurður á kvið móðurinnar til að hægt sé að hjálpa barninu í heiminn. Talið er að um eitt af hverjum sex pörum glími við ófrjósemi. Talað er um ófrjósemi þegar einstaklingar hafa reynt að eignast barn í eitt ár eða lengur án árangurs. Orsökin getur legið hjá karlinum, konunni eða báðum. Í sumum tilfellum finnst engin ástæða fyrir ófrjóseminni. 1 mánuður 3 mánuðir 5 mánuðir 7 mánuðir 9 mánuðir
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=