31 Náttúrulega 3 │ 1. kafli Kanínur og kettir hafa stundum sloppið eða verið sleppt í náttúruna á Íslandi. Teljast þau til villtra íslenskra spendýra? Það var ekki fyrr en mannfólkið kom til Íslands að fleiri spendýr festu hér rætur. Manneskjan er auðvitað líka spendýr og á margt sameiginlegt með öðrum dýrum en einnig ýmis sérkenni. Hún getur lifað á fjölbreyttu mataræði, aflað sér þekkingar og nýtt hana á fjölbreyttan hátt, notað hendurnar við hin ýmsu verkefni og fleira sem hefur gert að verkum að hún hefur getað ferðast um heiminn og síðan fest rætur hvar sem er í heiminum. Manneskjan hefur ferðast með önnur dýr með sér á milli landa og hafa önnur spendýr sem fest hafa rætur í íslenskri náttúru komið með henni hingað til lands. En hingað hafa líka komið húsdýr og gæludýr sem lifa eingöngu í samvistum við manneskjur. Mýs hafa líklega komið frekar snemma með landnemum og rottur nokkru seinna. Hreindýr voru flutt inn frá Noregi á 18. öld og hafa öll þessi dýr náð að koma sér vel fyrir í landinu og tilheyra spendýrafánu landsins. Minkurinn var fluttur inn árið 1931 og var haldinn í búrum og ræktaður fyrir feldinn. Minknum tókst fljótlega að sleppa úr haldi og koma sér fyrir í íslenskri náttúru. Hann getur verið skæður og hefur haft mikil áhrif á íslensk vistkerfi en hann er t.d. mjög ágengur á suma fuglastofna og drepur meira en hann étur. Mikilvægt er að fræða fólk um að yfirgefa ekki gæludýrin. Við berum ábyrgð á velferð þeirra. Bæði kanínur og kettir hafa átt mjög erfitt líf í íslenskri náttúru. Ekki er hægt að segja að þau spjari sig vel villt hér á landi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=