Náttúrulega 3

21 Náttúrulega 3 │ 1. kafli SKRIÐDÝR Skriðdýr eru flest með misheitt blóð eins og froskdýr sem þýðir einfaldlega að þau geta ekki haldið hitastigi sínu stöðugu af sjálfsdáðum. Þetta er stór hópur dýra sem inniheldur m.a. eðlur og froska en líka risaeðlur og fugla! Dýrin treysta á umhverfið til að hita upp eða kæla líkama sinn. Þau geta leitað í sólina til að hita upp kroppinn eða í skugga eða vatn til að kæla sig. Skriðdýr sem búa á kaldari slóðum þurfa að leggjast í vetrardvala en skriðdýr í heitum löndum þurfa þess ekki. Skriðdýr eru með innvortis frjóvgun eins og spendýr. Þau fæða þó oftast ekki afkvæmin eins og flest spendýr heldur verpa flest þeirra eggjum. Skurn flestra skriðdýra er mjúk og leðurkennd viðkomu á meðan egg fugla hefur harða skurn. Eitt sem aðgreinir skriðdýr frá froskdýrunum sem þau þróuðust frá er að þau eru ekki eins háð vatni. Til að þekkja skriðdýr frá froskdýrum getur verið snjallt að skoða skinn þeirra. Skriðdýr eru með þurrt og hreisturkennt skinn sem er vatnsþétt. Það getur verið gróft eða fíngert, matt eða glansandi en aldrei slímugt. Ef dýrið er blautt eða slímugt er líklega um froskdýr að ræða en ekki skriðdýr. Skriðdýr eru t.d. snákar, eðlur, skjaldbökur og krókódílar. Risaeðlur tilheyrðu flokki skriðdýra en eru í dag útdauðar, allar saman nema fuglar. Froskdýr og skriðdýr, önnur en fuglar, teljast ekki til villtra dýra á Íslandi en þó hafa verið flutt inn dýr sem gæludýr. Froskar hafa þó öðru hvoru fundist á afmörkuðum stöðum hér á landi síðustu ár og hafa mögulega verið að fjölga sér í náttúrunni. Ekki er þó vitað enn sem komið er hvaðan þeir koma eða hvort þeir muni ná fastri búsetu eða hvort þeir nái að dreifa sér víðar um landið. Tíminn verður að leiða það í ljós.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=