Náttúrulega 3

20 Náttúrulega 3 │ 1. kafli Froskdýr eru með blauta og slímuga húð. Þau finnast í öllum heimsálfum nema Suðurskautinu en þar er of kalt fyrir þau þar sem froskdýr hafa misheitt blóð. Þau lifa bæði á landi og í vatni og anda með lungum á landi en gegnum húðina í vatni. Húðin þarf að vera blaut til að hægt sé að anda í gegnum hana. Froskdýr eru á milli fiska og skriðdýra í þróunartrénu og líkjast líklega fyrstu hryggdýrunum sem skriðu á land. Froskdýrum má skipta í þrjá hópa. Froskar og körtur fjölga sér með ytri frjóvgun. Kvendýrin hrygna í vatni og karldýrin sleppa sáðfrumum sínum síðan yfir eggin. Úr eggjunum koma halakörtur, þær eru með tálkn og hala en þaðan kemur nafnið. Halakörtur lifa aðeins í vatni en með tímanum hverfur halinn og tálknin. Í staðinn vaxa fætur ásamt því að lungu myndast. Við þessa breytingu geta froskar og körtur líka lifað á þurru landi. Salamöndrur eru með innvortis frjóvgun eins og eðlur. Þær hrygna því eggjum sem þegar eru frjóvguð í vatni þar sem ungviðið þroskast síðan. Flestar salamöndrur lifa í vatni allt sitt æviskeið og eru bæði með fætur og hala. Halinn hverfur ekki eins og hjá froskum og körtum. Ormakörtur lifa oftast neðanjarðar og er sá hópur froskdýra sem minnst er vitað um. Þær minna á slöngur eða orma. Þær eru fótalausar og hafa afar lélega sjón. Þær fjölga sér með innri frjóvgun eins og salamöndrur. Stundum hrygna þær eggjum en stundum gjóta þær afkvæmum sínum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=