138 Náttúrulega 3 │ 5. kafli HVAÐ ER SET? Set er samansafn lausra bergbrota og lífrænna efna sem hefur losnað í kjölfar veðrunar og flyst til vegna rofs og síðan safnast saman. Algengt er að set safnist fyrir í árfarvegum, stöðuvötnum, eyðimörkum eða á sjávarbotni. Veðrun verður af mörgum ólíkum ástæðum, en hér er samantekt á nokkrum veðrunarflokkum. YTRI ÖFL Ytri öfl er máttur jarðarinnar til að breyta yfirborði sínu. Þessir kraftar tengjast bæði veðrum og úrkomu en einnig sjávarrofi, árrofi, vindrofi eða jökulrofi. Það efni sem brotnar niður úr fjöllum og bergi safnast saman og myndar set. Setið er myndað af lausum bergbrotum sem aftur mynda hluta jarðvegsins. Þetta ferli kallast veðrun og þegar einhver náttúruöfl flytja síðan þessa mola til kallast það rof. Steinar brotna niður við flutninginn með vatni, vindum, jöklum eða sjó í minni steina. Að lokum verða þessir steinar annaðhvort að seti í formi fjörusands í fjörum eða að seti í sjó. Frostveðrun Frostveðrun verður vegna hitasveiflna og hefur talsverð áhrif á jarðveg á Íslandi. Frostveðrun hefur mest áhrif þegar til staðar er raki (úrkoma), hitasveiflur um frostmark og opinn berggrunnur eða bert hraun. Vatn lekur inn í sprungur í bergi og þegar vatnið frýs þenst það út sem verður til þess að það molnar úr berginu og sprungur stækka. Við það kemst vatnið enn lengra inn. Frostveðrun getur valdið grjóthruni úr hlíðum fjalla eða berghlaupi þar sem heilu fjallshlíðarnar geta hrunið niður.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=