Náttúrulega 3

113 Náttúrulega 3 │ 4. kafli Vörur eru fluttar um heiminn þveran og endilangan í framleiðsluferlinu og úrgangur er einnig fluttur á milli landa með tilheyrandi orkunotkun. Gott er að hafa í huga hvar vörur eru framleiddar og hvaða ferðalag þær hafa þurft að fara áður en þær komast í hendur neytandans. Einnig er gott að hafa í huga að orkufrekara er að flytja vörur með flugvél en skipi. Niðurstaðan er að betri leið er að fá vöruna sjóleiðina ef möguleiki er á því þó það geti tekið lengri tíma. Þurfum við allt þetta dót? Mörg upplifum við mikið áreiti og mikla pressu frá samfélaginu til að eignast alls konar hluti og uppfæra eldri hluti í nýjustu útgáfurnar, t.d. síma. Auglýsingar birtast okkur úr öllum áttum, frá samfélagsmiðlum, áhrifavöldum, sjónvarpi og útvarpi svo dæmi séu tekin. Smám saman fyllast heimili af dóti sem er sjaldan notað og á endanum losar neytandinn sig við dótið til að einfalda lífið. Sumt fær framhaldslíf annars staðar á meðan annað endar einfaldlega á ruslahaugum. Hér er gott að velta fyrir sér nokkrum spurningum: Þarf ég hlutinn eða langar mig í hann? Get ég notað það sem ég á lengur? Get ég fengið hlutinn notaðan? Hvað ætla ég að eiga hlutinn lengi? Hvað ætla ég að gera við hlutinn þegar ég þarf ekki lengur á honum að halda? RAFMAGNSBÍLL Rafhlöður Rafmagnskló BENSÍNBÍLL Bensíndæla

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=