Náttúrulega 3

112 Náttúrulega 3 │ 4. kafli Orkunýting Eins og fjallað er í kaflanum hér á undan eru til ýmsar gerðir orku. Í alla framleiðslu þarf að nota einhvers konar orku, hvort sem um er að ræða hluti eða matvöru. Á sama hátt er ekki komist hjá því að nota orku til ferðalaga, flutninga á vörum, til að hita og kæla húsnæði svo dæmi séu tekin. Með þeirri tækni sem hefur þróast frá iðnbyltingu hafa lífsgæði fólks aukist mikið. Öll þessi tækni er orkufrek og hefur orkuþörf heimsins aukist gríðarlega samhliða þeirri þróun. Mikilvægt er að teknar verði skynsamlegar ákvarðanir varðandi sjálfbæra orkunýtingu í framtíðinni en með því er átt við að líf við ákveðnar aðstæður gangi ekki svo hart að auðlindum jarðar að lífsgæði komandi kynslóða skerðist. Mikilvægast af öllu er að draga úr neyslu og mynda eins lítið af úrgangi eins og hægt er í anda hringrásarhagkerfisins. En svo þarf líka að velja heppilegasta orkumátann miðað við aðstæður hverju sinni, endurnýjanleg orka er alltaf fyrsta val. Vistvænar samgöngur Við vitum öll að best er að ganga og hjóla þegar það er hægt. Deilibílar eins og strætó, rafhjól og þess háttar eru góð lausn til að spara orku og minnka umferð. Stundum dugar það ekki til og fólk þarf að nota einkabíl. Einkabílar menga alltaf meira en tegund orkugjafa sem notuð er til að knýja áfram bílinn getur skipt miklu máli. Á Íslandi eru rafbílar góður kostur þar sem rafmagnið okkar er búið til úr vatni sem er endurnýjanleg orka. Þetta er ekki raunin alls staðar í heiminum en til eru ýmsar aðrar lausnir en að brenna jarðefnaeldsneyti. Náðst hefur góður árangur með metan- og vetnisbíla, sumir bílaframleiðendur eru jafnvel farnir að gera tilraunir með bíla drifna af sólarorku. Vísindafólk leitar sífellt leiða til að nýta orkuna betur og búa þannig til farartæki sem menga minna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=