Náttúrulega 3

111 Náttúrulega 3 │ 4. kafli Einn þáttur í að draga úr loftlagsvandanum er að stuðla að eða auka kolefnisbindingu. Kolefnisbinding kallast það ferli þegar kolefni er bundið í gróðri eða jarðvegi í lengri tíma. Tré draga til sín koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, nota það til að vaxa og skila síðan súrefni til baka í andrúmsloftið. Þannig binda trén kolefnið til lengri tíma og þaðan kemur orðið kolefnisbinding. Með því að koma í veg fyrir eyðingu á skógum, votlendi og kóralrifjum svo dæmi séu tekin stuðlum við að áframhaldandi kolefnabindingu. Við getum síðan aukið hana með því að gróðursetja ný tré og endurheimta votlendi. Áður fyrr var jafnvægi í kolefnishringrásinni. Styrkur koltvíoxíðs í andrúmslofti var stöðugur og mikið var bundið í ýmsum kolefnisforðum. Dæmi um kolefnisforða eru olía, kol og gas sem var ósnert í jörðinni áður en byrjað var að nýta það til brennslu til að búa til orku. Þegar byrjað var að brenna þessa kolefnisforða fór jafnvægið úr skorðum og mikið magn koltvíoxíðs fór út í andrúmsloftið sem var áður bundið í jörðinni. Í dag er oft talað um kolefnisjöfnun. Með kolefnisjöfnun er átt við að einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir fjármagni verkefni sem komi í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda eða fjarlægi þær úr andrúmsloftinu í sambærilegu magni og losað var út. Þó er besta lausnin alltaf að minnka útblástur í stað þess að vinna að endurheimt koltvíoxíðs eftir losun. Til er tækni sem hreinsar koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. Það er síðan sett ofan í jarðveginn þar sem það er bundið en hugmyndir eru um að hægt sé að nýta það enn frekar í framtíðinni. Miklar tækniframfarir hafa orðið síðastliðin ár og áhugavert verður að sjá hvaða möguleikar leynast í þessari aðferð. Þó þetta verði aldrei heildarlausn á loftlagsvandanum gæti þetta orðið einn af mörgum þáttum sem hjálpa okkur í baráttunni. Ísland er eitt þeirra landa sem vinnur að þessari lausn af alvöru. Þó kolefnisbinding sé mikilvægur þáttur í baráttunni við loftlagsbreytingar er hún ekki lausn á öllum vanda. Draga þarf verulega úr losun til að árangur verði sýnilegur. Regnskógar og hafið eru oft kölluð lungu jarðarinnar vegna þess að þau draga til sín koltvíoxíð úr andrúmsloftinu og sjónum og skila í staðinn súrefni út í andrúmsloftið. Við landeyðingu losnar kolefni úr gróðri og jarðvegi en þegar við græðum illa farið land er verið að binda kolefni á nýjan leik. KOLEFNISBINDING OG KOLEFNISJÖFNUN

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=