Náttúrulega 3

102 Náttúrulega 3 │ 4. kafli Á Íslandi er nokkuð mikið af vatni en þrátt fyrir að það sé staðan hér er vatn af skornum skammti víða í heiminum. Breytingar á loftslagi og veðurfari hafa haft áhrif á það ferskvatn sem fólk hefur stólað á. Einnig hefur mengun haft áhrif á notkunarmöguleika á því vatni sem er til staðar. Ýmis efni sem eru hættuleg lífverum, þar með talið mannfólki, geta leynst í úrgangi sem við losum okkur við. Við viljum ekki að eiturefni endi í drykkjarvatninu okkar eða annars staðar þar sem þau geta valdið skaða. Því er nauðsynlegt að passa upp á hvernig vörur eru keyptar og hvernig þeim er fargað ef til kemur. Vatn er undirstaða lífs, við notum það til drykkjar, ræktunar matar og í framleiðslu af ýmsu tagi. Jörðin er eitt stórt vistkerfi. Það sem gerist á einum stað getur haft áhrif á öðrum stað. Vatn og loft er á sífelldri hreyfingu svo ekki er hjá því komist að hugsa um jörðina sem eina heild. Losun og mengun á einum stað er aldrei eingöngu bundin við þá staði þar sem hún fer fram heldur getur hún haft í för með sér afleiðingar á fleiri stöðum. Þess vegna er mikilvægt að allir taki þátt í baráttunni við loftlagsbreytingar. MENGUN Á SÉR EKKI LANDAMÆRI

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=