Náttúrulega 1

23 Náttúrulega 1 │ 1. kafli HRINGRÁS LÍFSINS Dýr, plöntur og lífvana þættir eru háðir hver öðrum. Orka flyst frá einni lífveru til annarrar í vistkerfinu. Þetta kallast fæðukeðja og byrjar hún í sólinni sem er uppspretta orku í lífríkinu. Plöntur geta bundið orku sólarinnar með ljóstillífun sem er ferlið þegar plöntur búa til sína eigin næringu. Þess vegna kallast plöntur öðru nafni frumframleiðendur því þeir framleiða fyrstu orkuna. Neytendur eru lífverur sem fá orku með því að neyta annarra lífvera. Neytendur geta verið plöntu- ætur, alætur eða kjötætur. Plöntuætur eru fyrsta stigs neytendur því þær eru framarlega í fæðukeðjunni en kjötætur sem nærast á öðrum dýrum eru annars stigs neytendur eða ofar. Alætur eru dýr sem nærast bæði á plöntum og kjöti. Sundrendur eru lokastig keðjunnar en það eru sveppir og bakteríur sem brjóta niður lífverur eftir að þær deyja og skila næringarefnum aftur í vistkerfið. Fæðukeðjan sýnir tengsl lífvera á mjög einfaldan hátt, hvernig orkan fer frá einu stigi yfir á annað. Í vistkerfum er það þó ekki svo einfalt vegna þess að það eru margar lífverur í vistkerfinu sem nærast hver á annarri. Til dæmis éta fuglar og mýs skordýr og ber. Uglur og refir éta bæði fuglana og mýsnar. Fæðuvefur sýnir því betur hvernig orkan flæðir um allt vistkerfið. Innan fæðuvefja má því finna margar fæðukeðjur. Ræðum saman Skipta ólíkar lífverur hver aðra máli? Eru einhverjar lífverur mikilvægari en aðrar í vistkerfum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=