Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 94 Helstu hugtök sem tengjast vistheimt Ágeng framandi lífvera. Þegar lífvera er flutt af mannavöldum inn á nýtt svæði er hún kölluð framandi lífvera og ef hún skaðar lífríkið sem þar er fyrir þá er hún orðin framandi ágeng lífvera. Einkenni ágengra framandi lífvera eru m.a. þau að þær fjölga sér hratt, þær geta lifað á mjög fjölbreyttu fæði eða við fjölbreyttar aðstæður. Minkur, lúpína og skógarkerfill eru dæmi um ágengar framandi tegundir á Íslandi. Framræsla votlendis. Þegar votlendi er þurrkað upp með skurðum. Votlendi geyma gríðarlega mikið magn af kolefni og þegar votlendi eru þurrkuð upp með þessum hætti þá losnar kolefnið út í andrúmsloftið og eykur þannig gróðurhúsaáhrifin. Frostlyfting. Þegar vatn frýs í jarðvegi sem hefur lítinn gróður, myndast ísnálar sem lyfta moldinni upp. Plöntur sem hafa náð að spíra og vaxa í svona moldarflagi yfir sumarið, þola frostlyftingu mjög illa og oft slitna hreinlega ræturnar. Frostnálar myndast ekki í vistkerfum í góðu ástandi. Gróður- og jarðvegseyðing. Þegar efsta lagið af gróðrinum losnar frá og það sést í bera mold þá kallast það jarðvegsrof. Þetta rof getur verið m.a. vegna vatns, vinds, jarðskjálfta eða vegna athafna okkar mannsins. Ef ástand landsins er gott og það fær frið þá grær þetta sár strax aftur en ef landið er í slæmu ástandi getur rofið stækkað. Mikil gróður- og jarðvegseyðing getur leitt til landhnignunar og að land verði örfoka. Hnignað vistkerfi/landhnignun. Vistkerfi sem er í slæmu ástandi. Fyrstu einkenni hnignunar í grónu landi geta verið að víðitegundir og lyng hverfa eða verða mun óalgengari. Alvarleg gróður- og jarðvegseyðing getur verið lokastig hnignunar og land í slíku ástandi er mjög skemmt og þar er mikil frostlyfting. Þar er hvorki gróður né mold eftir og jarðvegurinn sem situr eftir er næringarsnauður og ófrjór. Hringrásir. Í náttúrunni eru margir ferlar samtímis í gangi. Vistkerfi í góðu standi þurfa að vera með virkar hringrásir vatns, næringarefna, kolefnis og súrefnis. Innlend tegund. Allar tegundir lífvera eiga sér upprunaleg heimkynni þar sem þær þróuðust yfir langan tíma. Innlend tegund er sú sem er innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis og hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum hætti. Tófa og holtasóley eru dæmi um innlendar tegundir á Íslandi. Landlæsi. Það er hægt að læra að lesa landið og sá sem er landlæs þekkir muninn á örfoka landi og landi í góðu ástandi. Landlæsi er einnig það að þekkja einkenni lands sem er í framför (að batna) eða sem er að hnigna (að versna). Lífbreytileiki/Líffræðileg fjölbreytni nær yfir breytileika innan tegunda, milli tegunda og þeirra vistkerfa sem þessar lífverur mynda og eru hluti af, á landi, í sjó og ferskvatni. Loftslagshamfarir/Loftslagsváin. Hnignuð (skemmd) vistkerfi á landi hafa neikvæð áhrif á loftslagið að því leyti að þau binda minna koltvíoxíð úr andrúmsloftinu en vistkerfi í góðu standi gera. Það sama á sér stað þegar náttúrulegum gróðri er eytt til að rýma fyrir landbúnaði eða þegar gróður og jarðvegur eyðist af öðrum ástæðum, þá losnar koltvíoxíð sem áður var bundið í jarðveginum út í andrúmsloftið og stuðlar þannig að aukningu gróðurhúsaáhrifa. Súrnun sjávar er ein birtingarmynd loftslagshamfara. Náttúruvernd er sú stefna að vilja vernda náttúruna fyrir óæskilegum áhrifum af athöfnum mannsins. Vistheimt/endurheimt vistkerfa er ferli sem hjálpar hnignuðu (skemmdu) vistkerfi að ná bata og að koma náttúrulegum ferlum, eins og hringrásum vatns og næringarefna, aftur af stað. Þegar þessar hringrásir eru komnar í gang heldur vistkerfið sjálft áfram gróa. Válisti er skrá yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja eða eru í útrýmingarhættu. Á Íslandi hafa verið gefnir út válistar fyrir plöntur, fugla og spendýr.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=