Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 88 Tilraun 3. Hreinsun vatns í jarðvegi Áætlaður tími fyrir verkefni Þetta verkefni tekur eina kennslustund í undirbúning og 1-2 verklega tíma. Samtals 2-3 kennslustundir. Tilgangur Þessi tilraun snýst um að kanna hversu vel mismunandi jarðvegur hreinsar litað vatn en í þessari tilraun notið þið grænan matarlit. Niðurstöðurnar úr tilrauninni geta verið ólíkar og farið eftir jarðvegsgerð, fjölda sía sem notaðar eru og hversu mikið er notað af vatni og matarlit. Tilgangurinn er að þið lærið um eiginleika mismunandi jarðvegsgerða og áttið ykkur á því hve mikilvægur jarðvegur er fyrir vistkerfi í góðu standi. Þetta verkefni á sér erlenda fyrirmynd þar sem hægt er að skoða nánari útfærslu og myndir. Fræðsla Jarðvegur getur verið ótrúlega duglegur að hreinsa vatn. Aukaefni í vatni geta verið margskonar, t.d. olía, sápa og önnur mengandi efni sem lenda í jarðveginum. En hvað er það í jarðveginum sem nær að sía þessi aukaefni úr vatninu? Jú, það er kornastærðin. Það er ekki allur jarðvegur sem nær að sía vel því ef þú hellir menguðu vatni á jarðveg eins og sand, sem er með stór korn, þá er ekki líklegt að vatnið hreinsist. Alveg eins og ef þú hellir vatni yfir haug af kartöflum, það er svo mikið pláss á milli kartaflanna að vatnið síast ekki. En eftir því sem kornin í jarðveginum eru minni þeim mun betur síast og hreinsast vatnið. Mold og leir eru dæmi um jarðveg með litla kornastærð. Kornin eru svo smá að það er ekki mikið pláss á milli þeirra og aukaefnin í vatninu festast þess vegna betur á milli þegar vatnið rennur í gegn. Þannig síast vatnið og verður hreinna. Þumalputtareglan er sú að því lengur sem það tekur vatn að renna í gegnum jarðveg, þeim mun betur hreinsast það. Jökulvatn úr Langjökli rennur í Þingvallavatn. Vatnið er gruggugt þegar það leggur af stað. Það tekur 20–30 ár að ná leiðarenda en þá er það búið að síast mjög vel. Mismunandi jarðlög hreinsa vatn misvel.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=