| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 75 Verkefni 7. Hlutverkaleikur – Grænabyggð Áætlaður tími fyrir verkefni Styttri útgáfan tekur um 1-2 kennslustundir. Lengri útgáfan tekur um 4-6 kennslustundir. Tilgangur Þetta verkefni er hlutverkaleikur þar sem þið setjið ykkur í spor ýmissa hagsmunaaðila á náttúrusvæði sem er í hættu. Þið stýrið leiknum sjálf og hafið þannig áhrif á framvindu og niðurstöðu leiksins. Unnið er með lýðræði, samvinnu og að læra að skilja sjónarmið annarra sem geta verið ólík ykkar sjónarmiði. Fræðsla Það getur verið umdeilt þegar breyta á svæði eða skipulagi og skoðanir á því geta verið jafn margar og fólkið sjálft. Hvað er þá til ráða? Hvernig er best að komast að niðurstöðu í málinu sem flestir geta verið sammála um? Á t.d. að fara í ákveðna framkvæmd, á ekki að fara í framkvæmdina eða er hægt að breyta skipulaginu þannig að framkvæmdin fari betur með náttúruna? Lykilatriði í slíkum samningsviðræðum er að kynna sér málin vel, setja fram vel ígrundaðar tillögur og tala saman á málefnalegan hátt en það þýðir að hver og einn fær að segja sína skoðun á kurteisan hátt. Það getur verið erfitt að finna lausn sem allir eru 100% sammála en með því að tala saman á þennan hátt þá er hægt að finna leið, á lýðræðislegan hátt, sem hentar flestum. Undirbúningur Þið eruð íbúar í sveitarfélaginu Grænubyggð. Skóli sveitarfélagsins er staðsettur í fallegum dal sem kallast Grænidalur. Í Grænadal er mikil náttúrufegurð, þar er m.a. votlendissvæðið Kötlumýri með gæsavarpi, birkiskógur, falleg á rennur eftir dalnum auk þess sem hverasvæði er að finna í botni dalsins. Skólinn nýtur þess sem dalurinn hefur uppá að bjóða og hefur skólamenningin og skólabragurinn þróast í samræmi við það. Í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins Grænubyggðar á að flytja skólann úr dalnum á svæði sem er inni í sjálfri byggðinni, nokkuð langt frá dalnum. Í staðinn á að byggja upp ferðamannasvæði í dalnum með hótelum og heilsuböðum. Hætta er á að votlendið í Grænadal raskist við framkvæmdirnar. Það má líka taka fyrir málefni sem tengist annars konar náttúrusvæði í nágrenni skólans, t.d. rask á birkiskógi, fuglabúsvæði eða strandsvæði, stíflu í fljóti eða þverun fjarðar. Verkefnavinna – styttri útgáfan Þar sem lýðræði er í hávegum haft í Grænubyggð hefur verið ákveðið að halda fund með aðilum sem að skólanum koma til að ræða þessa tilhögun og segist sveitarstjórnin taka til athugunar þær niðurstöður sem út úr fundinum koma. Það eru sex hlutverk í hverjum hóp: nemandi, kennari, skólastjórnandi, foreldri, ferðaþjónustuaðili, meðlimur sveitarstjórnar. Skrifið hlutverkin á miða og dragið hver fær hvaða hlutverk. Þið eruð öll hluti af skólasamfélagi skólans. Nú skuluð þið setja ykkur í þau hlutverk sem ykkur hefur verið úthlutað og velta fyrir ykkur neðangreindum atriðum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=