| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 67 ¾ Plöntur. Farið yfir helstu plöntuhópa sem gætu fundist á svæðinu á plöntuvef Menntamálastofunar. Það eru líklega að mestu grös, starir og sef en ýmsar blómplöntur geta leynst í framræstu landi og því gott að skoða helstu tegundir þar. Ein góð þumalputtaregla er að ef þið takið stráið og rúllið því á milli puttanna og það er þrístrent (með þrjár skarpar brúnir frekar en sívalningur) þá er það stör. ¾ Fuglar. Skoðið helstu fuglategundir sem gætu fundist á svæðinu. Það er líka gott að vera með eyrun opin og á fuglavef Menntamálastofnunar má hlusta á tóndæmi til undirbúnings og fá meiri upplýsingar um fuglana. ¾ Smádýr. Farið yfir helstu hópa smádýra og skoðið einnig smádýr eftir því í hvaða búsvæði þau finnast, sérstaklega á landi og í vatni á smádýravef Menntamálastofnunar. ¾ Spendýr. Vonandi verðið þið heppin að sjá villtu spendýri bregða fyrir, það er þess virði að vera með opin augu og stundum er líka hægt að sjá ummerki eftir spendýr, greni, skít eða för. Meiri upplýsingar um landspendýr má finna á spendýravef Menntamálastofnunar. Það eru ekki margar tegundir villtra spendýra á Íslandi en þið gætuð séð í skottið á tófu, mink eða hagamús. Minkur er ágeng framandi tegund á Íslandi. GPS hnit. Best er að nota GPS mæli, en ef hann er ekki til staðar þá má nota ýmis smáforrit í símunum. Verkefnavinna Þið vinnið saman í litlum hópum og skiptið á milli ykkar þeim mælingastöðum sem ákveðnir voru. Skiptist á verkum þannig að allir prófi að greina plöntur og vera ritari. 1. Skrifið stutta lýsingu á svæðinu og skráið hjá ykkur ef þið verðið vör við fugla eða villt dýr á svæðinu. Skráið einnig hjá ykkur þau smádýr sem þið sjáið eða heyrið í. Ef tjarnir eru á svæðinu skuluð þið kíkja eftir vatnapöddum, m.a. brunnklukkum og vatnsköttum (hvað er nú það?). 2. Finnið alla mælingastaðina og merkið þá vel og takið GPS hnit. 3. Notast er við gróðurmælingaramma sem eru settir tilviljanakennt á jörðina nálægt merkingarstöðinni. Einn tekur að sér að loka augunum, snúa sér í hring og kasta rammanum frá sér (ekki of langt samt). 4. Áður en byrjað er að mæla þá skal einnig tekið GPS hnit þar sem ramminn lenti. 5. Næst skuluð þið taka góða ljósmynd af rammanum. 6. Gróðurmælingar. Skráið allar tölulegar upplýsingar á skipulegan hátt, t.d. má styðjast við skráningarblað 1. Fjöldi mælinga á hóp fer eftir hversu mikill tími verður til afnota. a. Greinið hvaða plöntur eru í rammanum ykkar. Gott er að byrja að átta sig á fjölbreytileikanum, þ.e.a.s. hvaða tegundir er að finna í rammanum. Greinið tegundirnar með aðstoð plöntuhandbókar. Greinið allt til tegunda ef hægt er en annars má greina til plöntuhópa: 1) mosar, 2) fléttur, 3) grös, starir og sef, 4) blómjurtir (t.d. hundasúra og túnfífill) og 5) smárunnar (t.d. beitilyng og krækilyng) og runnar (t.d. gulvíðir og loðvíðir). a. Næst metið þið þekju tegundanna. Þekjan er metin sem hlutfall af heildarþekju þ.e. flatarmáli reitsins. Til dæmis ef ein plöntutegund þekur helming af reitnum fær hún 50% þekju. Ef hún þekur fjórðung 25% o.s.frv. Plöntur sem mjög lítið er af er hægt að skrá sem > 5% eða jafnvel >1%.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=