| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 65 Verkefnavinna Birkiverkefni 1. Þið skulið finna birkitré eða birkiskóg í nágrenni skólans eða svæðisins sem valið var til sáningar og fylgjast með fræframleiðslunni í byrjun skólaárs að hausti. Fræreklarnir eru mjög áberandi og auðvelt að ná þeim af þegar fræin eru þroskuð. 2. Það er gott að skoða veðurspána í september og október og fara út að safna fræi í góðu veðri. Reklarnir geta fokið af í vondu veðri og það er mismunandi hve lengi þeir haldast á trjánum. 3. Sáið fræjum annaðhvort strax eða þurrkið og geymið á köldum stað fram á vor og sáið þá. Merkið vel svæðið sem búið er að sá í og takið GPS hnit og merkið inn á kort. Þá er auðvelt að fylgjast með hvar er búið að sá og hvar má sá á næsta ári. 4. Fylgist árlega með vexti plantnanna, og öðrum lífverum, og stækkið sáningarsvæðið jafnt og þétt. Víðiverkefni Klippið og stingið niður græðlingum af víði snemma vors þegar frost er farið úr jörðu. Sjá leiðbeiningar með myndum á bls. 24–27 í „Gulvíðir og loðvíðir – eiga víða við“. Hægt er að fylgjast með árangri og mæla lifun græðlinganna, þ.e.a.s. telja hve margir græðlingar eru á lífi eftir sumarið og jafnvel árin þar á eftir. Verkefni í skólastofu Skiptið ykkur í litla hópa og gerið hópverkefni sem tengjast íslenskum birkiskógum. Finnið heimildir, skoðið myndir og myndbönd og segið frá eins og þið viljið. Hér eru nokkrar hugmyndir og vangaveltur sem þið getið skoðað. Hver hópur kynnir niðurstöður sínar fyrir hinum í bekknum með skapandi skilum. ¾ Hvernig voru birkiskógar Íslands í augum víkinganna? ¾ Hvað varð til þess að birkiskógar minnkuðu í gegnum árin? ¾ Hvaða lífverur lifa í birkiskógum? ¾ Af hverju þolir birkiskógur eldgos betur en graslendi? ¾ Hvað er kúalubbi og hvernig tengist hann birki? ¾ Hvar eru stærstu birkiskógar á Íslandi? ¾ Af hverju eru sum birkitré há og bein en önnur eru lág og kræklótt? ¾ Lesið greinina Landnám birkis á Skeiðarársandi eftir Bryndísi Marteinsdóttur og fleiri í Náttúrufræðingnum árið 2007 og segið frá því hvernig skógur getur komið til baka eftir að hafa horfið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=