Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 64 Verkefni 3. Endurheimt íslenskra birkiskóga Áætlaður tími fyrir verkefni Þetta verkefni tekur eins mikinn tíma og áhugi er fyrir og veður leyfir. Fræsöfnunin sjálf getur staðið yfir frá því fræin eru orðin þroskuð á haustin og þangað til þau fara að detta af, þetta er mislangur tími eftir árum og einnig er fræframleiðsla misjafnlega mikil milli ára. Hægt er að gera verkefnið einu sinni eða endurtaka árlega. Upplagt er að vinna þetta verkefni samhliða tilraun 2 um spírun og vöxt birkifræja. Tilgangur Tilgangur þessa verkefnis er að auka landlæsi ykkar, vekja athygli ykkar á birki og þeim tegundum sem búa í birkiskógum og hvernig þið getið tekið þátt í því að endurheimta birkiskóga Íslands. Fræðsla og undirbúningur Lesið kaflana Lífið er fjölbreytt og Endurheimt birkiskóga Byrjið þetta verkefni á að horfa á þátt Landans um uppruna birkisins á Skeiðarársandi og þáttinn Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands. Í samráði við skólann, sveitarfélagið og jafnvel Landgræðsluna eða Skógræktina þarf að finna svæði í nágrenni skólans sem gæti hentað fyrir sáningu á birkifræjum. Munið að birkitré geta orðið ansi há og þau þurfa pláss. Hafið lífbreytileikann í huga við undirbúninginn og þá sérstaklega breytileika innan birkis. Ef þið finnið heppilegt svæði utan þéttbýlis skulið þið svipast um eftir staðarbirki. Ef það er til staðar þá er gott að safna fræjum af því (þó trén séu kannski vindsorfin eða kræklótt) til að viðhalda lífbreytileika birkiskógarins sem þið ætlið að endurheimta. Ef ekkert staðarbirki er til staðar eða ef svæðið ykkar er í borgarumhverfinu getið þið safnað fræjum af birkitrjám í nágrenni skólans eða jafnvel sótt um í Yrkjusjóð og fengið birkiplöntur til að gróðursetja. Mikið er af upplýsingum og leiðbeiningum um fræsöfnun og dreifingu á heimasíðu landsátaks í söfnun birkifræs, Landgræðslunnar og Hekluskóga.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=