| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 63 Verkefnavinna Skoðið og kortleggið gróður á náttúrusvæði í nágrenni skólans. 1. Þið getið annaðhvort mælt gróður mjög vísindalega á litlu svæði (sjá aðferðafræði í tilraun 1 – Skítatilraun) eða skoðað og skráð helstu tegundir á stærra svæði. Það má líka gera bæði. Munið bara að íslenskar plöntur eru oft smávaxnar og því er alltaf gott að horfa vel niður fyrir sig og jafnvel hafa stækkunargler með í för. 2. Safnið saman niðurstöðum bekkjarins og setjið niðurstöðurnar upp í töflureikni. Hvaða plöntutegundir voru algengastar? Hversu margar tegundir funduð þið? Hverjar af þeim eru innlendar og hverjar eru framandi? 3. Funduð þið einhverjar framandi eða jafnvel ágengar framandi tegundir? Veltið fyrir ykkur hvort þörf sé á aðgerðum og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Önnur verkefni 1. Takið þátt í borgaravísindaverkefni með Flóruvinum sem eru samstarfshópur sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á íslensku flórunni hjá Hinu Íslenska náttúrufræðifélagi. Flóruvinir bjóða upp á ýmislegt sem tengist flóru Íslands, m.a. sumarátak við skráningu háplantna og plöntuskoðunarferðir, m.a. í tengslum við Dag hinna villtu blóma. 2. Skoðið lífbreytileika innan tegunda. a. Kortleggið birki og birkiskóga í nágrenni ykkar. Hvernig eru trén í laginu? Eru þau bein eða kræklótt eða eitthvað þar á milli? Hvernig er börkurinn á litinn (vísbending um aldur)? Hvað haldið þið að hafi áhrif á útlit birkis? Skiptir máli hvað tréð er gamalt eða hvernig veðrið er á svæðinu? Er munur á birki milli svæða? b. Farið í berjamó og berið saman einstakar plöntur sömu tegundar, t.d. bláberjalyng. Eru þær allar eins? Eru öll berin eins? 3. Birkistofnar eru oft búsvæði fyrir margs konar fléttur og mosa. Þar eru einnig margvísleg smádýr og t.d. auðnutittlingum finnst gott að éta fræin. Skráið niður allar þær lífverur sem þið sjáið á og í nágrenni birkisins. 4. Farið út með stækkunargler og skoðið og skráið fléttur og mosa. Þið getið jafnvel skoðað vaxtarhraða út frá stærð fléttna á misgömlum veggjum, legsteinum eða á greinum birkis. 5. Skráið blómgunartíma þeirra tegunda sem blómgast fyrst á vorin. Ef þetta er gert árlega er hægt að fylgjast með breytingum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=