Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 6 Fyrir nemendur Kæru nemendur. Í þessu námsefni lærið þið um margvísleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Vistheimt eða endurheimt vistkerfa er ein slík lausn en það er ferli sem hjálpar náttúrunni að lækna sig sjálfa þegar vistkerfi hefur hnignað (skemmst). Dæmi um vistheimt á Íslandi eru endurheimt birkiskóganna (þegar fræjum er sáð og trjám plantað á land þar sem áður var skógur), endurheimt votlendis (þegar jarðvegi er mokað aftur ofan í skurði) og björgun hafarnarins frá útrýmingu (friðun). Náttúran þarf tíma og næði til að lækna sín sár, alveg eins og mannslíkaminn þarf tíma til að græða sár og bein eftir slys. Þó að margt sé mjög mikilvægt í lífi allra (fjölskyldan, vinirnir og jafnvel síminn eða tölvan) þá er náttúran kannski það allra mikilvægasta. Án vistkerfa heimsins væri ekkert andrúmsloft, engin fæða, ekkert hreint vatn og engin hráefni til að byggja hús eða framleiða annað sem við nýtum í daglegu lífi (eins og símar og tölvur). Hnignuð vistkerfi geta síður veitt okkur þessa mikilvægu þjónustu en með vistheimt er hægt að snúa blaðinu við. Með náttúruvernd og vistheimt er hægt að hjálpa náttúrunni, vinna gegn frekari loftslagshamförum, auka lífbreytileika og minnka líkurnar á að tegundir deyi út. Með því að hlúa að náttúrunni og gefa henni það pláss sem hún þarf er meira að segja hægt að minnka líkur á að farsóttir nái að smitast yfir í menn frá villtum dýrum. Það er því til mikils að vinna, ekki bara fyrir náttúruna, heldur okkur sjálf. Öll erum við ólík og með áhuga á mismunandi hlutum og vonandi finnið þið verkefni sem henta ykkur. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og hægt að gera þau eins einföld eða flókin og þið viljið. Í námsefninu eru frásagnaverkefni, hópverkefni og tilraunir sem aðstoða ykkur að koma auga á lausnir og hugmyndir að aðgerðum sem þið getið jafnvel sjálf framkvæmt. Myndir segja oft meira en þúsund orð. Í námsefninu er fullt af hlekkjum á myndir og myndbönd. Verið dugleg að smella á hlekkina.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=