Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 28 Mold er verðmæt auðlind sem er lengi að myndast. Hún safnar smám saman upp lífrænum efnum, 1–2 mm á áratug við bestu aðstæður. Það er mikilvægt að fara vel með moldina. Hringrás næringarefna Íslensk mold er frjósöm eldfjallajörð sem getur bundið mikið af vatni en á sama tíma loðir hún ekki vel saman. Vegna þessa eiginleika sinna þá er íslenskum jarðvegi hætt við rofi. Hringrásir næringarefna eru nauðsynlegar í starfsemi vistkerfa. Eins og þegar við borðum mat, taka lífverur upp næringarefni úr jarðvegi, andrúmslofti eða með því að nærast á öðrum lífverum. Þegar lífverur deyja eða losa frá sér úrgang, brotnar lífræna efnið niður með aðstoð baktería og annarra örvera, sem einnig eru kallaðar sundrendur. Næringarefnin losna þannig aftur út í jarðveginn. Smádýr eins og ánamaðkar gegna einnig mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna því þeir grafa göng sem koma súrefni niður í moldina og þeir flýta fyrir sundrun lífræns efnis í jarðveginum. Þessi næringarefni sem sundrendur og ánamaðkar hafa losað út í jarðveginn eru til dæmis nitur, fosfór og brennisteinn. Þau nýtast plöntum því þær þurfa næringarríkan jarðveg til að dafna. Að auki þurfa plöntur orku frá sólinni, koltvíoxíð úr andrúmsloftinu og vatn. Í vistkerfum sem hafa skemmst eða hnignað hefur hringrás þessara næringarefna rofnað og þá hverfa þau smám saman úr umhverfinu. Í hafinu er einnig hringrás næringarefna. Þar gegna hvalir m.a. stóru hlutverki, bæði með úrgangi sínum og einnig þegar þeir deyja. Hvalaskíturinn flýtur á yfirborðinu og dreifir þannig næringarefnunum upp í efri lög hafsins. Hvað gerist ef hringrásir vatns og næringarefna rofna? ?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=