| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 18 Mengun Mengun getur verið af ýmsum toga og haft neikvæð áhrif á lífbreytileika. Ýmiss konar iðnaður getur mengað ár og vötn með skaðlegum efnum og næringarefnamengun (ofauðgun) frá landbúnaði eða skólpi getur valdið lífríki í vötnum og ám miklum skaða. Ýmis skordýraeitur, illgresiseyðar, þungmálmar og hormónahermandi efni (t.d. paraben) geta haft áhrif á líkamsvefi og jafnvel safnast upp í fæðukeðjunni. Loftmengun er alvarlegt vandamál víða um heim og kemur aðallega frá iðnaði og notkun á jarðefnaeldsneyti. Plastmengun verður þegar plast safnast upp og brotnar niður í ör- og nanóplast og veldur dýrum skaða. Dýr geta flækst í stærra plastinu og étið plastagnirnar. Annars konar mengun getur tengst breyttu hitastigi, geislum, úrgangi, jarðvegi og fleiru. Válistar Árið 2019 voru yfir 27.000 tegundir lífvera skráðar á heimsválista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakann IUCN. Fjölmargar tegundir íslenskra lífvera eru á válista, þ.e. á skrá yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja eða eru í útrýmingarhættu. Á Íslandi eru þrjár tegundir varpfugla útdauðar samkvæmt válista fugla en það eru gráspör, haftyrðill og keldusvín. Fjöruspói, lundi eða skúmur eru í bráðri hættu og blesgæs, duggönd, fýll, haförn, hvítmáfur, kjói, sendlingur, stuttnefja, svartbakur, teista og þórshani eru í hættu. Fjölmargar aðrar fuglategundir eru í nokkurri eða yfirvofandi hættu. Á válista íslenskra spendýra eru það sjávarspendýrin sem eru í mestri hættu; rostungur og sandlægja eru útdauð á Íslandi, landselur og sléttbakur eru í bráðri hættu og steypireyður og útselur eru í nokkurri hættu. Á válistum plantna eru fjölmargar tegundir í einhverskonar hættu; 56 tegundir æðplantna, 74 tegundir baukmosa og 67 tegundir fléttna (blað- og runnfléttna). Það vantar upplýsingar um aðrar fylkingar mosa og meira en helming fléttna. Að auki er ekki búið að gera válista fyrir fiska og smádýr. Besta leiðin til að bjarga tegundum frá útrýmingu er að vernda búsvæði þeirra.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=