Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 16 Loftslagshamfarir Hnignuð vistkerfi á landi hafa neikvæð áhrif á loftslagið að því leyti að þau binda minna koltvíoxíð úr andrúmsloftinu en vistkerfi í góðu standi gera. Það sama á sér stað þegar náttúrulegum gróðri er eytt til að rýma fyrir landbúnaði eða þegar gróður og jarðvegur eyðist af öðrum ástæðum, þá losnar koltvíoxíð sem áður var bundið í jarðveginum út í andrúmsloftið og stuðlar þannig að aukningu gróðurhúsaáhrifa. Súrnun sjávar er ein birtingarmynd loftslagshamfara. David Attenborough, náttúrufræðingur og náttúrulífsmyndagerðamaður hefur talað fyrir náttúruvernd nær alla sína ævi. Hann var stórorður á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, í Póllandi árið 2018 og í Skotlandi árið 2021. Hann varaði við því að algjört hrun siðmenningar og náttúru væri við sjóndeildarhringinn og að loftslagsbreytingar af mannavöldum gætu leitt til meiri háttar náttúruhamfara og gereyðingar stórs hluta náttúrunnar ef ekki yrði gripið hratt til aðgerða. Hann sendi leiðtogum heims ákall til að bregðast strax við loftslagsvánni, annars yrði það of seint. Sjá nánar um loftslagsmálin og súrnun sjávar í kaflanum Loftslagsmálin. Ágengar framandi tegundir Samspil lífvera innan vistkerfa er oft flókið og margbreytilegt og ef mikilvæg tegund tapast úr vistkerfi getur það verið mjög slæmt fyrir kerfið í heild. Býflugur eru t.d. mikilvægir frjóberar og án þeirra eiga sumar plöntur erfitt með að fjölga sér. Það sama á við ef ný tegund kemur inn í vistkerfi af mannavöldum. Fjöldi tegunda eykst jú tímabundið en sumar nýjar tegundir geta valdið því að aðrar tegundir hörfa eða jafnvel hverfa úr vistkerfinu. Allar tegundir lífvera eiga sér upprunaleg heimkynni þar sem þær þróuðust yfir langan tíma. Þessar lífverur eru kallaðar innlendar tegundir. Innlend lífvera er sú sem er innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis og hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum hætti. Þegar lífvera er flutt af mannavöldum inn á nýtt svæði er hún kölluð framandi tegund og ef hún skaðar lífríkið sem þar er fyrir þá er hún orðin ágeng framandi tegund. Skaðinn getur verið samkeppni við aðrar tegundir um næringu og búsvæði og einnig þegar nýja lífveran étur innlendar tegundir sem eru ekki vanar því að vera étnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=