Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 13 Tap á lífbreytileika Maðurinn er dýrategund sem hefur gengið mjög vel. Stór heili og hugvit hefur hjálpað mannkyninu að dafna en það hefur bitnað á náttúrunni og raskað jafnvægi hennar. Gríðarlegt tap hefur orðið á lífbreytileika og vistkerfi Jarðar eru víða í mikilli hættu. Má þar nefna náttúruskóga, votlendi, vistkerfi á heimskauta- og háfjallasvæðum, kóralrif og þaraskóga. Þegar lífverustofnar minnka og einangrast eða tegundir deyja út vegna áhrifa mannsins þá er búið að raska jafnvægi náttúrunnar sem hefur tekið langan tíma að þróast. Tegundir sem deyja út er ekki hægt að endurheimta, þær koma ekki til baka. Áhrif okkar mannfólksins á einn hlekk í vistkerfi getur leitt til keðjuverkunar og þannig valdið meiri eyðileggingu en hægt var að ímynda sér í upphafi. Þegar villt dýr tapa búsvæðum sínum, t.d. vegna ósjálfbærs landbúnaðar, og þegar villt dýr eru seld lifandi semmatvæli eða gæludýr, þá geta sjúkdómar borist úr dýrum yfir í okkur mannfólkið. Með þessum hætti geta blossað upp heimsfaraldrar eins og raunin var með COVID-19. Rannsóknir sýna að verndun á lífbreytileika í vistkerfum komi í veg fyrir hættulega smitsjúkdóma sem geta borist í okkur mannfólkið. Það er því mikilvægt, ekki bara fyrir lífríkið, heldur líka okkur mannkynið, að breyta lífsháttum okkar og laga sambandið við náttúruna, m.a. að varðveita lífbreytileikann og endurheimta vistkerfi Jarðarinnar. Í 5. þætti „Hvað getum við gert?“ sem fjallar um lífbreytileika segir Jane Goodall, dýrafræðingur að hún telji COVID-19 faraldurinn bæði bölvun og blessun fyrir mannkynið. Hann sé fyrst og fremst að rekja til ágangs mannsins á náttúruna og nú sé lag að breyta lífsháttum okkar. Fimm helstu ógnir við lífbreytileika í heiminum eru: Mengun Ofveiði og ofnýting á lífverum Loftslagshamfarir Tap á búsvæðum Ágengar framandi tegundir

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=