Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 12 Tenging við náttúruna Á Íslandi er yfirleitt stutt í íslenska náttúru hvort sem búið er í borg eða í sveit. Í nágrenni ykkar gætu verið fjörur, tjarnir, berjamór, fuglabjörg og jafnvel birkiskógar eða votlendi sem iða af lífi. Í þessum vistkerfum er að finna alls konar lífverur sem gaman er að skoða og hlusta á t.d. blóm, fuglar og smádýr. Á vorin og sumrin fer mikið fyrir farfuglunum og það er gaman að fylgjast með þeim koma ungum sínum á legg. Ef þið eruð heppin sjáið þið kannski tófu eða hagamús eða jafnvel seli eða hvali. Allar þessar lífverur og samskipti þeirra eru hluti af flóknum vef lífbreytileikans þar sem sumar tegundir eru háðar öðrum til að geta lifað. „Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir, þú þekkir aðeins það sem þér er kennt.” Guðmundur Páll Ólafsson Náttúruvernd er sú stefna að vilja vernda náttúruna fyrir óæskilegum áhrifum af athöfnum mannsins. Á Íslandi er mikið af fallegri náttúru sem Íslendingum þykir vænt um og náttúran er einnig það sem flest erlent ferðafólk kemur til að skoða. Samt er íslensk náttúra á ýmsum stöðum í hættu vegna þeirra sem vilja nýta náttúruna eða náttúrusvæði til orkuframleiðslu, í ferðamennsku, í landbúnað og ýmissa framkvæmda. Það geta flestir verið sammála um að sjálfbær nýting á náttúru getur verið jákvæð í mörgum tilfellum en annars staðar er óspillt náttúra verðmæt, mikilvæg og þess virði að vernda. Í sumum tilfellum hafa deilur staðið yfir árum og stundum áratugum saman og með Rammaáætlun er leitað málamiðlunar milli verndar, annarrar nýtingar náttúrugæða og orkuframkvæmda. Það er líka hægt að láta sér þykja vænt um staði sem maður hefur ekki séð. Amazon regnskógarnir eru gríðarlega mikilvægt vistkerfi fyrir Jörðina og það er hægt að elska þá og virða þó maður hafi ekki verið svo heppinn að fara þangað. Það er líka hægt að vera þakklátur fyrir lífverur eins og t.d. ánamaðka, sem eru mikilvægir fyrir frjósemi jarðvegs eða býflugur sem frjóvga m.a. ávextatré. Það að vernda þessar lífverur og þau vistkerfi sem þau lifa náttúrulega í er mikilvægt fyrir matarframleiðslu í heiminum. Allar tegundir eru mikilvægar, meira að segja mýflugur sem eru stundum pirrandi fyrir okkur mannfólkið en eru mikilvæg fæða fyrir aðrar lífverur, t.d. önnur skordýr, fugla og fiska. Lífríki Mývatns er einstakt á heimsvísu vegna mýflugnanna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=