Næsta stig - Kennsluleiðbeiningar

2. STIG, HUGMYNDASTIGIÐ – SKAPANDI FERLI Nú eruð þið komin að hugmyndastiginu þar sem á að búa til nýjar hugmyndir, velja úr þeim og þróa þær áfram. Það er gert með því að nota tvenns konar hugsanagang sem kallast margbreytileg eða sundurhverf (e. divergent) hugsun annars vegar og samleitin (e. convergent) hugsun hins vegar. Margbreytilegur hugsanagangur er notaður í byrjun hugmyndastigsins, við hugmyndaflæði þar sem reynt er að brjóta upp venjulegan hugsanagang, gera tilraunir og hugsa um nýja möguleika. Þessi hugsanagangur beinist að magni og því að finna eins margar hugmyndir og mögulegt er. Þegar notuð er sundurhverf hugsun opnum við á margar nálganir að ákveðnu efni. Þess vegna er mikilvægt að bjóða allar hugmyndir velkomnar. Samleitna hugsun notum við hins vegar þegar nemendur flokka, greina og íhuga hugmyndirnar sem þeir hafa fengið í hugmyndaflæðinu. Þess vegna notum við þetta hugsunarferli til að leggja mat á gildi hugmyndanna, þar sem gæði þeirra eru í brennidepli. Í gildismatinu er virði valinna hugmynda kortlagt; það er síðan notað til að ígrunda hvaða hugmynd nemendur vilja þróa áfram í framhaldinu. Virði/gildi getur verið félagslegt, fjárhagslegt eða menningarlegt. Þetta snýst um að fá nemendur til að hugsa um hverju hugmynd þeirra getur breytt og hvers virði hún er fyrir aðra. Þegar nemendur þurfa að meta gildi hugmyndanna er umfjöllun um hversu faglegar hugmyndirnar eru mikilvæg, þ.e. hvort þær passi inn í þann faglega ramma sem við á. Hugmyndirnar þurfa að vera í samræmi við þá námsgrein eða efni sem unnið er með og tímann sem er úthlutað í verkið. Þó er einnig mikilvægt að drepa ekki niður sköpunarkraft nemenda – það er hárfínt jafnvægi sem þarf að ná. Ein leið til að tryggja faglega undirstöðu í mati á virði/gildi hugmyndanna er að láta nemendur nota eigin þekkingu af uppgötvunarstiginu til að velja og flokka hugmyndirnar. Þegar nemendur eiga að flokka og meta hugmyndirnar er mikilvægt að kanna hversu raunhæfar þær eru og hvort þær eru framkvæmanlegar fyrir nemendurna. Hugmyndastigið er opið ferli og því er mikilvægt að leyfa óreiðu, tilraunir og að nemendur kanni nýjar leiðir; það er aldrei að vita hvaða hugmyndir þeir koma með.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=