Miðaldafólk á ferð

3 Miðaldafólk er fólk sem lifði á miðöldum. Skrýtið orð, miðaldir. Eru það aldir sem eru í miðið eða í miðjunni á einhverju? Hvað er þá á undan og eftir? Á undan er fornöldin og á eftir kemur nýöld, segja menn. Svo bæta sumir við að fornöldin hafi verið glæsileg, með egypskum píramídum, grískum spekingum og rómverskum hringleikahúsum, og að á nýöldinni hafi tæknin farið af stað, með vísindum, vélum og framförum. En þar á milli? Miðaldirnar! Voru þá allir sofandi eftir glæsileika fornaldar og biðu eftir að vakna í framförum á nýöld? Eins og Þyrnirós sem svaf í heila öld? Ó, nei. Það var ýmislegt að gerast og auðveldast er að benda á miðaldadómkirkjur í Evrópu og Snorra-Eddu á Íslandi. Ekki var það sofandi fólk sem bjó þetta til. Þetta miðaldafólk sat nefnilega ekki kyrrt heldur var talsvert á ferð Í þessari bók er sagt frá þeim sem voru sérstaklega mikið á ferð í pílagrímsferðum, landkönnun, heimshornaflakki eða verslunarleiðöngrum. Í bókinni stönsum við ekki lengi á Íslandi en vindum okkur til Grænlands og Ameríku, þeysum yfir Evrópu og siglum á Miðjarðarhafi og Svartahafi, þrömmum til Jerúsalem, brjótumst yfir Sahara og hlaupum með fram Kyrrahafinu, heimsækjum Damaskus, Bagdad, Maldíveyjar og Kína. Gætið að því ferðin er ekki hættulaus.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=