Miðaldafólk á ferð
44 Foringinn Í Norður-Frakklandi höfðu enskir hermenn komið sér fyrir árið 1429 vegna þess að Englandskonungur hélt því fram að hann ætti að erfa franska konungsríkið. Það var líka til franskur prins sem gerði kröfu til þess sama. Hann var meira að segja sonur síðasta konungs og hét Karl eins og hann. Það dugði samt ekki til á þessum tíma því prinsarnir urðu ekki konungar nema æðstu menn samþykktu það. Í Frakklandi voru þeir ekki sammála því sumir fylgdu Englandskonungi og aðrir Karli konungssyni. Þá kom fram sautján ára gömul stúlka og bauðst til að gera Karl að konungi. Hún hét Jóhanna og var ólæs sveitastelpa. Þegar hún var tólf ára og var að gæta kinda úti í haga fór hún að heyra himneskar raddir, sagði hún. Mikael erkiengill sagði henni að fara til Karls prins, hjálpa honum að frelsa borgina Orléans frá Englendingum og gera hann svo að löglegum konungi með því að láta krýna hann í borginni Reims. Þetta voru tvær mikilvægar borgir. Hún heyrði líka raddir heilagrar Katrínar og heilagrar Margrétar, sem báðar voru dýrlingar. Lengi vel streittist hún á móti en hlýddi að lokum því hún trúði að þetta væri Guðs vilji og lagði af stað til að hitta konungssoninn. Liðsmenn Karls konungssonar urðu hissa en tóku henni samt alvarlega því hún var svo sannfærandi. Þeir þorðu ekki strax að láta hana hafa hersveit til yfirráða og þess vegna voru biskupar og aðrir lærðir menn látnir yfirheyra hana og rannsaka í nokkrar vikur. Hún fékk hverja spurninguna á fætur annarri og tókst að svara þeim flestum. Einn hálærður maður spurði til dæmis þannig: Hvaða tungumál töluðu raddirnar? – Betra mál en þú talar, svaraði Jóhanna. Trúir þú á Guð? spurði lærði maðurinn. – Meira en þú, sagði Jóhanna.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=