Miðaldafólk á ferð

9 Þið sjáið af þessu að orðið öld er stundum notað í merkingunni hundrað ár en stundum um lengra tímabil eða bara tímabil yfirleitt. Það er sem sagt enginn heilagur sannleikur að kalla eitthvert tímabil miðaldir. Þið sjáið líka að þessi skipting er fyrst og fremst miðuð við það sem gerðist í Evrópu og á ósköp lítið við um aðrar heimsálfur. En heitið er til og það er mikið notað og þess vegna er gott og gagnlegt að þekkja það. Algengt og sjaldgæft Miðaldafólk er fólk sem lifði á miðöldum en í þessari bók er aðallega sagt frá þeim sem voru uppi á seinni hluta miðalda. Mest er sagt frá fólki sem var á ferð, bæði í löngum og stuttum ferðum. Á miðöldum voru fæstir mikið á ferð og þess vegna eru sögurnar í þessari bók um það sjaldgæfa frekar en það venjulega. En þannig er það til dæmis með fréttirnar sem þið lesið í blöð- unum eða heyrið í útvarpi eða sjónvarpi. Þær eru flestar um það óvenjulega. Í fréttunum er stundum sagt frá innbrotum og þá getum við hugsað: Það er sagt frá innbrotum vegna þess að flestir brjótast ekki inn. Það er sagt frá ísbjörnum sem koma á land á Íslandi af því að ísbirnir koma venjulega ekki á land hér. Hvað var þá venjulegt og algengt á miðöldum? Það var að vera heima og vinna við búskap. Flestir bjuggu í sveitum en borgir og annað þétt- býli var líka til um allan heim. Það var munur á fólki því sumir voru þrælar en aðrir vinnufólk, sumir bændur eða iðnaðarmenn en líka voru til ríkir menn, höfðingjar og kóngar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=