1. KAFLI Kennarar á tímum hnattrænna og flókinna áskorana 8 Risastórt, aðkallandi, flókið, hnattrænt og ógnandi málefni Í skólum er framtíðin, kynslóðin sem mun taka við þegar fram líða stundir. Framtíðin er eins og alltaf óskrifað blað nema að núna vitum við að framtíð mannkyns á Jörðinni er í hættu vegna loftslagsbreytinga og alvarlegrar hnignunar vistkerfa. Og það erum við sjálf, mannkynið, sem erum ógnvaldurinn að eigin framtíð. Miklar breytingar þurfa að eiga sér stað í samfélögum okkar ef við ætlum að ná að leiðrétta þessa stefnu og bjarga mannkyninu, sem og öllum hinum lífverunum sem við deilum Jörðinni með, fyrir horn. En hingað til virðumst við vera föst í viðjum vanans og höldum áfram óbreytt eins og ekkert væri. Tíminn er naumur og á meðan við, núverandi kynslóð fullorðinna, ræðum um nauðsynlegar breytingar frekar en að framkvæma þær, þurfum við að mennta nýja kynslóð á þann hátt að hún verði í stakk búin að finna nýjar leiðir, nýtt kerfi, nýja hugsun, nýjar stefnur og lausnir. Ekki síður hvernig mannkynið getur aðlagast og glímt við þær afleiðingar loftslagsbreytinga sem ekki er lengur hægt að afstýra. Menntun nýrrar kynslóðar getur því verið með mikilvægari tækifærum þess að mannkyninu takist að finna leið úr þessum ógöngum sem það er búið að koma sér í. Áskoranirnar sem við verðum að takast á við eru flóknar, málin eru samofin og krefjast þverfaglegrar og heildstæðrar hugsunar. Vandamálin snerta heiminn allan, loftslagsbreytingar og tap á líffræðilegri fjölbreytni virða ekki manngerð landamæri. Vegna þess og vegna hnattvæðingar dugar ekki að hugsa einungis um málefnin í samhengi eigin lands eða svæðis heldur þurfum við að tileinka okkur hnattræna vitund eða alheimsvitund. Eins þurfum við að skilgreina okkur aftur sem hluta af náttúrunni og ekki bara á grunni þekkingar heldur einnig tilfinningalega, við verðum að staðsetja okkur sjálf aftur innan náttúrunnar. Mannkynið hefur enn þá ekki tekist á við málefnið og farið í róttækar breytingar Kröfur um róttækar breytingar í samfélögum okkar koma úr virtum og viðurkenndum áttum eins og frá bestu vísindamönnum heims og frá Sameinuðu þjóðunum (SÞ). Við vitum í grófum dráttum hvað þarf að gera en virðumst ekki finna leiðina þangað auk þess að okkur skortir kjark og þor til að taka á málunum. Stóru ákvarðanirnar liggja í höndum stjórnmálafólks, fjármagnseigenda og eigenda og stjórnenda stærstu fyrirtækja um allan heim. Auk þess hefur hver og einn ýmsa möguleika til að stuðla að nauðsynlegum breytingum hvort sem er í daglegu lífi eða með því að hafa áhrif og þá m.a. á stjórnmálafólk. Hnattræna vitund eða alheimsvitund er vitund um innbyrðis tengsl fólks, samfélaga, hagkerfa og náttúrunnar um allan heim. Hún leggur áherslu á ábyrgð og áhrif einstaklinga, samfélaga, fyrirtækja og ríkja í þágu allra samfélaga, ekki bara þeirra eigin.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=