Menntun til sjálfbærni 6 NOKKUR ORÐ UM UPPBYGGINGU OG INNIHALD BÓKARINNAR Aðalviðfangsefni bókarinnar er menntun til sjálfbærni og snúast fyrstu þrír kaflarnir aðallega um það. Til þess að veita einnig mikilvægan grunn til að skilja brýna merkingu og umfang menntunar til sjálfbærni er síðan í köflum 4–6 fjallað um sjálfbæra þróun, loftslagsmálin, líffræðilega fjölbreytni og aðgerðir sem mannkynið þarf að fara í. Bókin er skrifuð með vestræn lönd í huga. Hver kafli er skrifaður þannig að hann standi fyrir sig. Því nýtist bókin einnig sem uppflettirit, þar sem áhugasamir geta valið sér viðfangsefni til að kynna sér hverju sinni. Í lok hvers kafla er stutt samantekt til að leggja áherslu á helstu atriðin. Menntun til sjálfbærni á að undirbúa nemendur til að bregðast við áskorunum samtímans og framtíðarinnar á valdeflandi og skapandi hátt. Markmið menntunar til sjálfbærni er að auka og efla gildi, hæfni og getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Til eru ýmsar skilgreiningar á menntun til sjálfbærni, grunnurinn er nokkuð skýr en áherslur og útfærslur geta verið mismunandi. Í þessari bók er byggt á skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Bókin er í takt við skilgreiningu aðalnámskrár hérlendis og þá reynslu sem fengist hefur m.a. af Grænfánaverkefninu, sem hefur verið viðurkennt sem aðalinnleiðingartæki fyrir menntun til sjálfbærni af UNESCO (Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna). Menntun til sjálfbærni er í stöðugri þróun. Áherslur bókarinnar eru að taka það helsta saman um núverandi og opinbera alþjóðlega og innlenda skilgreiningu, stöðu og stefnu á menntun til sjálfbærni. Þetta er hvergi tæmandi umfjöllun og byggjast þessar áherslur og framsetningin að sjálfsögðu einnig á skilningi, reynslu og túlkun höfundar á málefninu. Lesandinn er hvattur til sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar um innihald handbókarinnar og til að taka virkan þátt í að þróa menntun til sjálfbærni áfram í daglegu skólastarfi. Það er mín von að bókin veiti hagnýta þekkingu á menntun til sjálfbærni, ýti við gagnrýnum spurningum, svörum og umræðum, hvetji og hjálpi kennurum að þróa áfram menntun til sjálfbærni í skólastofunni með nemendur og framtíð okkar allra í brennidepli. Guðrún Schmidt Egilsstöðum, á haustdögum 2022 Þó þetta rit sé birt haustið 2023 þá kláruðust handritsskrifin haustið 2022 og miðast efnistök, töflur og myndir við þann tíma.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=