Menntun til sjálfbærni

2. KAFLI Menntun til sjálfbærni – fræðilegur grunnur 55 Geta til aðgerða er m.a. að geta séð fyrir sér skýra fram- tíðarsýn um samfélög sem lifa með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, finna skilyrði sem þarf til þess að raungera þessa sýn og ná valdeflandi getu til þess að fá aðra með og hafa áhrif á stjórnmálalegum skala. Í þessu skyni þurfa kennarar að nota nálganir menntunar til sjálfbærni, kennsluefni um stjórnmálalega valkosti til aðgerða, kennslufræðileg verkfæri og rými þar sem þeir geta stutt nemendur í að þróa, prófa og hrinda í framkvæmt verkefnum sem hafa áhrif á raunveruleg skilyrði. Greta Thunberg hefur m.a. talað með skýrum hætti fyrir þörfinni á pólitískum lausnum: „Við sem einstaklingar verðum að nota kraft lýðræðisins svo að rödd okkar heyrist og við sjáum til þess að valdhafar geti ekki lengur hunsað það.“ Valdefling sem leið úr loftslagskvíða Þeim einstaklingum sem finna fyrir umhverfis- og/eða loftslagskvíða fjölgar stöðugt og það er ekki síst unga fólkið sem kvíðir framtíðinni vegna umhverfisáhrifa mannsins. Það sjónarmið heyrist að það eigi ekki að íþyngja ungu fólki með miklum fréttum af stöðu umhverfismála og ógnandi framtíðarhorfum. Það er ákveðin, og skiljanleg, tilhneiging að reyna að milda stöðu mála gagnvart unga fólkinu og gefa því von án þess að hún sé á aðgerðum reist. Það er margt til í því að þessar myrku framtíðarhorfur geti leitt af sér kvíða, vonleysi og aðgerðaleysi. Þess vegna skiptir grundvallarmáli að það sé unnið með þetta dapurlega ástand Jarðarinnar á uppbyggjandi, valdeflandi og um leið raunsæjan hátt. Það er ekki hægt að fela fyrir unga fólkinu hversu alvarleg staðan er. Þær fréttir liggja í loftinu og fara ekki fram hjá neinum. Í menntun til sjálfbærni er mikil meðvitund um þetta og kennsluaðferðir og -innihald taka mið af því að nemendur finni sína leið til að vinna sig út úr kvíðaástandi og inn í aðgerðaástand. Tilfinningarleg vitund – Forsendur til að breyta út af vananum Í menntun til sjálfbærni er lögð rík áhersla á að leggja tilfinningar á borðið og ræða þær, að nefna þær en ekki bæla þær niður. Kvíði, áhyggjur og von eru samtengdar tilfinningar og það er mikilvægt að vera meðvituð um þær. Með getu til aðgerða er ekki einungis reynt að hafa áhrif á gildismat og lífsstílsbreytingar einstaklinga. Heldur er sérstaklega horft til þess hvernig efla má borgara í lýðræðissamfélagi til að knýja fram kerfislægar breytingar sem þurfa að fara fram í gegnum stjórnmálalega ákvarðanatöku. Hræðslan má hvorki lama okkur né láta okkur fara í afneitun og stinga höfðinu í sandinn. Við þurfum að trúa því einlæglega að við getum og ætlum að breyta heiminum til batnaðar þó að leiðin þangað verði eflaust löng, erfið og stundum óljós.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=