Menntun til sjálfbærni

2. KAFLI Menntun til sjálfbærni – fræðilegur grunnur 43 2.6.3 TENGING VIÐ NÆRSAMFÉLAGIÐ – GRENNDARHUGSUN „Námið er tengt heimabyggð og eigin lífi án þess að missa sjónar á hnattrænum tengingum. Litið er til nærumhverfis, menningararfs og fjölmenningar. Verkefni eru unnin í samstarfi við stofnanir og fólk í samfélaginu.“ Eitt af mörgum mikilvægum lykilatriðum í menntun til sjálfbærni er að tengja sjálfbærnimálin við eigið daglegt líf, eigin reynsluheim og eigin lífsstíl og neyslu. Að læra við ýmsar og fjölbreyttar aðstæður sem koma upp í næsta umhverfi nemenda eykur innsýn þeirra í samhenginu milli náttúru, samfélags og efnahagsmála, skilning á mismun- andi hagsmunum og sjónarhornum og eykur færni þeirra til að leysa vandamál. Það er mikilvægt fyrir nemendur að skynja líka að hver og einn þarf að byrja á breytingum hjá sjálfum sér og að allir geta haft áhrif í sínu nærumhverfi og látið sig málin varða. Nemendur þurfa að finna að þeir eiga sína rödd og hafa tækifæri til að koma sínum hugmyndum og baráttumálum á framfæri hvort sem er í skólanum, á heimilinu eða í nærsamfélagi. Að skynja og skilja staðbundnar aðstæður í hnattrænu samhengi og færa staðbundnar aðgerðir í samræmi við hnattrænar þarfir og kröfur. Grenndarhugsun og hnattræn vitund tengjast á mikilvægan hátt. Á ensku er búið að forma nýtt orð í kringum þetta hugtak – glocal – sem er samansett orð úr global og local, að hugsa hnattrænt og framkvæma heima fyrir eða að vinna heima með heiminn í huga. Þetta er líka einn kjarni í getu til aðgerða. Dæmi um verkefni úr verkefnakistu Grænfánans: Hjálpum þeim að hjálpa hafinu Fræsöfnun og sáning birkifræja Umhverfishönnun Það skiptir máli að fundnir verði aðgerðamöguleikar í raunveruleikanum sem gætu höfðað til hvers og eins en jafnframt að tengja aðgerðirnar við vandamál og aðgerðamöguleika á heimsvísu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=