2. KAFLI Menntun til sjálfbærni – fræðilegur grunnur 28 2.4 ÍSLENSK TILMÆLI OG TENGINGIN VIÐ AÐALNÁMSKRÁ Ísland hefur innleitt menntun til sjálfbærni í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2011 sérstaklega með því að tilgreina sex grunnþætti sem mynda kjarna menntastefnunnar. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þeir tengjast innbyrðis og eiga að mynda heildarsýn um skólastarfið. Grunnþættirnir mynda þau siðfræðilegu, félagslegu og uppeldislegu gildi sem eiga ekki að vera bundin við einstakar námsgreinar heldur á að miðla þeim þvert á allar greinar. Gildin að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag og eiga að hafa áhrif á val viðfangsefna, verkefna og kennsluaðferða. Það þarf að nálgast viðfangsefnin á heildstæðan hátt, af faglegri viðsýni og þverfagleika. Slíkt getur kallað á óhefðbundna kennsluhætti. Í aðalnámskrá stendur m.a. að markmið með sjálfbærnimenntun í skólunum sé „að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn.“ (Mennta- og menningarmálaráðuneyti 2013). Einnig kemur skýrt fram að lokamarkmið menntunar sé geta til aðgerða og að margt smátt geri eitt stórt þannig að ekki þurfi að bíða eftir stóru breytingunum til að geta fagnað þeim smærri. Nemendur eigi að þroska með sér hæfni í anda grunnþáttanna. Skilgreind er lykilhæfni þ.e. tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Í þemaheftinu „Sjálfbærni“ er hugmyndafræðinni um sjálfbærni nánar lýst og hvernig hægt er að innleiða sjálfbærni í sérhverja námsgrein og í skólastarfi í heild. Grunnþættir menntunar úr aðalnámskrá grunnskóla.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=