Menntun til sjálfbærni

2. KAFLI Menntun til sjálfbærni – fræðilegur grunnur 21 SAMANTEKT Markmið menntunar til sjálfbærni er að auka og efla gildi, hæfni og getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Menntun til sjálfbærni er valdeflandi og umbreytandi ferli sem á að hafa áhrif á lífsstílsbreytingar hjá hverjum og einum auk þess að efla þau við virka þátttöku á samfélags- og kerfisbreytingum. Í menntun til sjálfbærni er verið að nálgast viðfangsefnin á þverfaglegan hátt með öll heimsmarkmiðin í huga. Mikil áhersla er lögð á að efla hnattræna vitund og réttlætiskennd. Menntun til sjálfbærni byggir á kenningu um hugsmíðahyggju og notast við fjölbreyttar, þátttökuhvetjandi og leitandi kennsluaðferðir þar sem nemandinn er ávallt í brennidepli. Nemendur öðlast ýmsa lykilhæfni þar sem geta til aðgerða er aðalmarkmiðið. Geta til aðgerða er hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem ósjálfbær þróun veldur til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Umbreytingin sem stuðlað er að með menntun til sjálfbærni er stanslaust ferli og er hlutverk kennara að vera leiðbeinandi og leiðtogi þessa ferlis. Mikilvægt er að ferlið muni ekki einungis eiga sér stað í huganum heldur einnig í aðgerðum og framkvæmdum. Finna þarf aðgerðamöguleika í nærumhverfi og samfélagi og hvetja einstaklinga til að lifa eftir gildum sjálfbærrar þróunar sem eru m.a. nægjusemi, réttlæti og samkennd. Valdefling einstaklinga nær einnig til þess að efla þá til að taka beinan þátt í stjórnmálalegum ferlum og hafa þannig áhrif á þær stóru kerfisbreytingar sem þurfa að eiga sér stað.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=