Menntun til sjálfbærni

5. KAFLI Ógnir sem steðja að okkur – Loftslagsvá og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni 170 Ljóst er að vernd líffræðilegrar fjölbreytni er lífsnauðsynleg fyrir mannkynið. Við skiljum bara brot af þessu ógnarflókna samspili lífvera. En við erum búin að skilja nóg til þess að vita að allt inngrip okkar í þetta samspil hefur að lokum áhrif á okkur sjálf. Líffræðileg fjölbreytni er vernd fyrir mannkynið og aðra lífverur. Verndum breytileikann fyrir okkur, komandi kynslóðir og allt lífið á Jörðinni. SAMANTEKT Líffræðileg fjölbreytni er annað orð á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki eða styttingunni lífbreytileiki og nær til fjölbreytileika alls lífríkis hvort sem er fjöldi tegunda, breytileiki innan tegunda og einnig breytileiki milli vistkerfa. Líffræðileg fjölbreytni er grundvallaratriði í vistkerfum þar sem hver tegund hefur ákveðinn sess í samspili mismunanda tegunda og vistkerfa. Vistkerfin veita ýmsa þjónustu hvort sem er súrefni, hreint vatn, frjósaman jarðveg, fæði, klæði, byggingarefni og vernd gegn sjúkdómum. Líffræðileg fjölbreytni hefur m.a. lykilhlutverk í því að vistkerfi geta þolað breytingar upp að vissu marki eins og vegna flóða, þurrka eða sjúkdóma. Einnig getur líffræðileg fjölbreytni komið í veg fyrir mikla útbreiðslu sjúkdóma og veitir oft vörn gegn sjúkdómum. Líffræðileg fjölbreytni hefur minnkað mikið síðustu áratugina og áfram fjölgar tegundum í útrýmingarhættu. Mannkynið ógnar líffræðilegri fjölbreytni m.a. með ofnýtingu vistkerfa, vegna taps á búsvæðum, mengunar, loftslagsbreytinga og áhrifa framandi ágengra tegunda. Tap á líffræðilegri fjölbreytni veikir vistkerfin þannig að þau eiga m.a. erfiðara með að aðlagast loftslagsbreytingum. Og á hinn bóginn eru loftslagsbreytingar að valda m.a. tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Gerðir hafa verið alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni og ljóst er að samtvinna þarf aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Mikilvægar aðgerðir til að vernda líffræðilega fjölbreytni eru m.a. að endurheimta náttúruleg vistkerfi (vistheimt), sjálfbær landnýting og landbúnaður, aukning búsvæða m.a. í borgum og minnkun kjötáts. Að vernda líffræðilega fjölbreytni skiptir gífurlegu máli fyrir allt lífríkið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=