Menntun til sjálfbærni

5. KAFLI Ógnir sem steðja að okkur – Loftslagsvá og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni 168 5.9.3 Tenging líffræðilega fjölbreytni við loftslagsmálin og öll heimsmarkmiðin Loftslagshamfarir og tap á lífræðilegrar fjölbreytni eru tvö stór vandamál sem haldast í hendur. Tap á líffræðilegri fjölbreytni veikir vistkerfin sem eiga erfiðara með að verjast veðuröfgum, aðlagast breyttu veðurfari og að ná sér aftur eftir áföll. Þetta veldur hnignun og þjónusta vistkerfanna minnkar. Hnignandi vistkerfin missa þannig líka getu sína til þess að binda og geyma kolefni. Til að gera illt verra eru loftslaghamfarir ein af fimm helstu ástæðum fyrir tapi á líffræðilegri fjölbreytni í heiminum. Gerðir hafa verið alþjóðlegir samningar um bæði loftslagsmál og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Enn fremur starfa bæði milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og milliríkjanefnd um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa (IPBES). Þessar nefndir vinna töluvert saman og stefna að enn meiri samvinnu til að samræma aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Viðurkennt er opinberlega á alþjóðlegum vettvangi að það er jafn aðkallandi að grípa til aðgerða til verndar líffræðilegri fjölbreytni og gegn loftslagsbreytingum og mikilvægt er að samhæfa þessar aðgerðir svo þær vinni ekki gegn hvor annarri. Vandamál sem koma upp vegna minnkunar líffræðilegrar fjölbreytni hafa oft hvað mest áhrif á þær þjóðir sem reiða sig mest á heimaframleiðslu. Þjóðir sem lifa í nánu sambandi við náttúruna, ekki síst frumbyggjar og mörg fátæk lönd. Þó að ríkar þjóðir flytji mikið inn frá þessum löndum hafa þær það fjármagn sem þarf til að leita annað ef uppskerubrestur verður á einum stað. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni er því eins og loftslagsmál mikið réttindamál og þarf að meðhöndla sem slíkt. Þannig þurfa aðgerðir fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni að minnka markvisst það óréttlæti sem minnkun á þessari fjölbreytni hefur í för með sér. Hér er þá best að horfa á allt í samhengi heimsmarkmiða. Líffræðilega fjölbreytni á eins og loftslagsmálin að skoða og meðhöndla með réttlæti að leiðarljósi að hætti heimsmarkmiða. Vernd villtrar náttúru og vinna við endurheimt náttúrulegra vistkerfa (vistheimt), sjálfbær landnýting og landbúnaður, aukning búsvæða m.a. í borgum og minnkun kjötáts eru meðal mikilvægra aðgerða sem leika lykilhlutverk við vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Uppfærsla - Í lok árs 2022 var nýr alþjóðlegur samningur um líffræðilega fjölbreytni samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Montreal. Þar kemur m.a. fram að vernda þarf 30% af náttúru á landi, strandsvæðum og hafsvæðum fyrir 2030. Þetta er mikilvægur samningur og ljóst er að Ísland og mörg önnur lönd eiga langt í land til að geta staðist þessi markmið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=