4. KAFLI Leið til framtíðar – sjálfbær þróun 129 SAMANTEKT Það er mjög mikilvægt að átta sig á tengingu hagkerfis við sjálfbæra þróun enda er það ein af þremur grunnstoðum hennar. Þegar borin eru saman hugmyndafræði, einkenni, gildi og markmið annars vegar sjálfbærrar þróunar og hins vegar núverandi óhefts markaðshagkerfis kemur í ljós að gildi hagkerfisins eru í mótsögn við gildi sjálfbærrar þróunar. Sem dæmi þá virðir sjálfbær þróun þolmörk náttúrunnar en núverandi markaðshagkerfi gerir það ekki og byggir m.a. á stöðugum hagvexti. Það er því ljóst að núverandi hagkerfi getur ekki stuðlað að sjálfbærri þróun og mikilvægt er að gera róttækar breytingar á því með gildi sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Með tækniþróun má minnka notkun hráefna, vinnuafls og fjármuna sem fer í framleiðslu vara og einnig minnka mengun. Tækniþróun er því hluti af lausninni en ekki aðalatriðið. Vegna kröfu um sífelldan hagvöxt og vegna þess að við viljum eiga sífellt meira hefur ávinningurinn verið „étinn upp“ fram að þessu. Þetta kallast „endurkastsáhrif“ eða á ensku „Rebound-Effect“. Velferð okkar í vestrænum heimi byggir að hluta til á því að við höfum í gegnum hnattvæðingu getað úthýst bæði ofnýtingu auðlinda og mengun til annarra landa. Ójöfnuður í heimunum hefur aukist mikið og velferðin sem hefur skapast hefur aðallega nýst ríkum minnihluta heimsbyggðarinnar á kostnað annarra og náttúrunnar. Ákveðin hætta er einnig á því að ójöfn dreifing eignarhalds á fáeinar hendur geti haft áhrif á virkni lýðræðis. Hagvöxturinn, neysluhyggjan og lífsgæðakapphlaupið móta ákveðna hringrás þar sem aukin framleiðsla á meiri, betri, nýjum og ódýrum vörum vekur upp hjá okkur þarfir og langanir. Slíkt eykur eftirspurn sem aftur eykur framboð og svo koll af kolli. Rannsóknir hafa þó sýnt að upp úr vissri velmegun mun enn meiri velmegun ekki sjálfkrafa auka lífsgæði og hamingju. Þessi fyrirbrigði kallast „Easterlin-Paradox“. Við þurfum að endurhugsa hvernig hið góða, eftirsóknarverða líf á að vera og hvernig við öðlumst það. Sérfræðingar víðs vegar um heim eru búnir að hanna ný og öðruvísi hagkerfi sem byggja á öðrum mælikvörðum um velgengni þjóðar en hagvexti og geta gjörbreytt því hvernig við umgöngumst náttúruna og hvert annað.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=