4. KAFLI Leið til framtíðar – sjálfbær þróun 124 Þetta er fallega hugsað en þegar staðreyndir eru skoðaðar kemur annað í ljós. Á meðan verg landsframleiðsla í heiminum í heild óx á árunum 1981 til 2019 frá 28,4 billjón bandarískra dollara í 82,6 billjón hafa af hverjum dollara viðbót einungis 5% skilað sér til þeirra 60% borgara heims sem eru með minnst milli handanna. Skatthlutfallið til ríkra manna, stórra fyrirtækja og hlutafélaga hefur yfirleitt minnkað á síðustu áratugum víðs vegar um heiminn þannig að ágóðinn af hagvextinum hefur ekki farið í opinbera innviði heldur þvert á móti hefur þessi ríki hópur oft eignast hlut af ýmsum innviðum í gegnum einkavæðingu. Ójöfnuður í heimunum hefur aukist mikið. Samkvæmt Oxfam international hefur ríkasta 1% jarðarbúa grætt meira á síðustu 40 árum en fátækasti helmingur mannkyns samanlagt. Ef hagnaði og tekjum af atvinnustarfsemi væri deilt með jafnari hætti hefði verið hægt að útrýma fátækt og það fyrir löngu. Í dag lifa tvöfalt fleiri á Jörðinni en fyrir 50 árum síðan auk þess sem vistspor margra hefur aukist. Þar af leiðandi er því oft haldið fram að fólksfjölgun sé aðalvandamálið. Að sjálfsögðu er fólksfjölgun vandamál m.t.t. vistgetu og þols Jarðarinnar. En staðan í dag er allavega ennþá frekar á þann veg eins og Mahatma Gandhi hefur sagt að „heimurinn hefur nóg til að uppfylla þarfir allra, en ekki til að seðja græðgi allra.“ Ef allir væru með lágt vistspor gæti þetta gengið upp en ekki þegar hluti mannkyns lifir langt umfram vistspor sem Jörðin getur borið. Sem dæmi má nefna að ríkustu 10% mannkyns bera ábyrgð á tæpum helmingi af losun koltvísýrings vegna lífsstíls síns á meðan fátækustu 50% bera einungis ábyrgð á um rúm 10% af losun koltvísýrings vegna lífsstíls (sjá meðfylgjandi graf 2). Nánar verður fjallað um loftslagsréttlæti í kafla 5. Graf 2: Hlutfall af heildarlosun koltvíoxíðs (Wir2022) Verg landsframleiðsla mælir fyrst og fremst framleiðslu á vörum og þjónustu sem gengur kaupum og sölu á markaði en ekki ýmis önnur gæði. Þá tekur hún hvorki tillit til auðlindanotkunar né tekjuskiptingar. Vísindavefurinn
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=