4. KAFLI Leið til framtíðar – sjálfbær þróun 120 Það liggur í augum uppi að núverandi hagkerfi sem byggir á hámörkun hagnaðar og ótakmörkuðum vexti, sem knýr fram framleiðslu og neyslu langt út fyrir þolmörk Jarðar, styður ekki við sjálfbæra þróun. Loftslagsváin sýnir okkur að við erum búin að stíga yfir mörk náttúrunnar allt of lengi þannig að það styttist í að vistkerfin hrynji ef við grípum ekki inn í núna og breytum um stefnu. Einnig höfum við fjarlægst markmið okkar um aukinn jöfnuð og réttlæti þar sem bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist, bæði innan og milli ríkja. Nauðsynlegar kerfisbreytingar verða að taka á hagkerfinu. Lífsgæðin okkar í vestrænum heimi hafa breyst mikið og hratt á undanförnum áratugum. Margt jákvætt hefur náðst eins og t.d. lengri líftími, lægri dánartíðni vegna ýmissa sjúkdóma, hærra menntunarstig, alþjóðlegir samningar um mannréttindi, heimsmarkmiðin o.s.frv. Miklar lífsstílsbreytingar hafa orðið hjá hverjum og einum í vestrænum heimi sérstaklega þegar horft er á neylustig, eyðslu og sóun. Það sem þótti lúxus fyrir einhverjum áratugum er núna talinn vera sjálfsagður hlutur. Hvort sem við hugsum hér um rennandi heitt vatn í hverju húsi, þvottavélar, sjónvörp, tölvur, snjallsíma, bíla, flugferðir til útlanda, jarðarber allan ársins hring eða ferskt avókadó á hverjum degi. Hingað til hefur hinn vestræni heimur getað uppfyllt auknar þarfir og óskir fyrir sívaxandi mannfjölda m.a. með því að þróa nýja tækni og með því að úthýsa nýtingu og mengun auðlinda til annara landa. Mynd 22: Núverandi hagkerfið byggir á neysluhyggju á meðan sjálfbær þróun þarf á nægjusemi að halda.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=