Menntun til sjálfbærni

1. KAFLI Kennarar á tímum hnattrænna og flókinna áskorana 12 SAMANTEKT Í þessum kafla er fjallað um mikilvægi og eiginleika kennarastarfsins í ljósi núverandi áskorana mannkyns varðandi loftslagsvá, tap á líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar. Menntun til sjálfbærni hefur verið þróuð bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi sem svar við þessum áskorunum. Ljóst er að samfélög verða að fara í róttækar breytingar á skömmum tíma og samhliða þarf að mennta nýja kynslóð á þann hátt að hún verði í stakk búin til að finna nýjar leiðir, nýtt kerfi, nýja hugsun, nýjar stefnur og lausnir. Einnig þarf að auka hnattræna vitund. Kröfur til menntastofnana eru miklar. Það þarf að mennta nemendur í þverfaglegri og heildstæðri hugsun og efla ekki einungis þekkingu heldur einnig ýmsa hæfni þeirra. Kennarar eiga að vera leiðtogar eða verkstjórar í þekkingarleit nemenda og nota fjölbreyttar og nýstárlegar kennsluaðferðir. Að kenna um loftslagsmálin og sjálfbæra þróun er um leið gagnrýni á lifnaðarhætti núverandi kynslóða, gagnrýni á okkur sjálf, þannig að allir verða að horfa í eigin barm og reyna sitt besta til að vera góðar fyrirmyndir. Þó að staða loftslagsmála sé skýr vísindalega og vitað hvað þarf að gera eru leiðirnar þangað umdeildar. En með því að leiðbeina nemendum við að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið og koma auga á lausnir þarf kennarinn ekki að taka pólítíska afstöðu sjálfur. Ekki síst er það bæði áskorun og tækifæri fyrir kennara að mennta nemendur sína á þann hátt að hugsanlegur loftslagskvíði muni minnka en efla í staðinn vilja og getu til aðgerða. Ýmis tilmæli um menntun til sjálfbærni til menntastofnana koma frá alþjóðasamfélaginu, sérstaklega í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og með margskonar samningum og stefnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=