4. KAFLI Leið til framtíðar – sjálfbær þróun 103 Núverandi merking á sjálfbærri þróun þróaðist í lok áttunda áratugs síðustu aldar. Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, veitti forstöðu nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna. Nefndin skilaði af sér skýrslu um sjálfbæra þróun árið 1987 sem hafði mikil áhrif á þróun hugmyndafræðinnar. Þar er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum“ (Umhverfisráðuneytið 2002). Þessi skilgreining hefur haldið sér og er áfram sú opinbera skilgreining sem alþjóðasamfélagið notar. Með öðrum orðum má segja að sjálfbær þróun þýðir að allir jarðarbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, lifa eins góðu lífi og hægt er án þess að ganga of nærri auðlindum Jarðar, öðru fólki og lífverum. Sjálfbær þróun krefst þess að fólk geti mætt frumþörfum sínum og að fátækt fólk hafi tækifæri til að eignast betra líf. Einnig kallar hún á sanngjarna skiptingu á auðlindum Jarðar innan og á milli kynslóða. Til þess að komandi kynslóðir geti nýtt auðlindir Jarðar liggur í augum uppi að við þurfum að nýta þessar auðlindir á þann hátt að náttúruleg endurnýjun þeirra geti átt sér stað þannig að við megum hvorki ofnýta, menga eða eyðileggja auðlindirnar. Við eigum að lifa á „vöxtum“ og varðveita „höfuðstól“ náttúrunnar. Í Brundtland-skýrslunni frá árinu 1987 kom skýrt fram að hagvöxtur ætti hvorki að vera mælikvarði á velgengni þjóðar né markmið þjóðar heldur þurfi að nota aðra mælikvarða. Hagkerfið á ekki að vaxa að umfangi, heldur að gæðum þannig að framtíð samfélaga sé ekki stefnt í hættu. Þróun felur í sér að samfélög geti og eigi að breytast, eins og t.d. að fátæk lönd geti þróast í átt að meiri velsæld. Orðið þróun skiptir líka máli í samhengi við menntun til sjálfbærni því það gerir okkur ljóst að við verðum að mennta nýja kynslóð með það að markmiði að hún hafi getu til þess að þróa og breyta núverandi lifnaðarháttum í átt að sjálfbærri þróun. Orðið sjálfbærni er oft notað í daglegu tali en því miður stundum misnotað og misskilið. Sjálfbærni er það ástand sem ætlast er til að ná með sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun er þar með þróun sem leiðir til meiri sjálfbærni. En slíku ástandi er ekki hægt að ná í eitt skipti fyrir allt heldur er það áframhaldandi ferli með sífellt nýjum áskorunum. Því má helst segja að orðið sjálfbærni sé leiðandi hugtak, sem leiðir til þess ástands sem við viljum fá og sem þarf stöðugt að vinna að. Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni er leiðandi hugtak sem leiðir til ástands sem ætlast er til að ná með sjálfbærri þróun og sem þarf stöðugt að vinna að.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=