Margt er um að velja
Inngangur kennara Margt er um að velja | 40202 | 8 Inngangur fyrir kennara Í þessari vinnubók eru nemendur virkjaðir með verkefnum og umræðum til að kanna störf og starfsgreinar. Könnun þeirra á störfunum, á tilurð og samfélagslegum tilgangi þeirra, er grunnurinn að heildarsýn á atvinnulífið og þar með gefst nemendum kostur á að kanna hvaða starfsvettvang þeir gætu hugsanlega kosið sér í framtíðinni. Efninu er svo fylgt eftir í seinni hluta vinnubókarinnar Sjálfsskoðun og starfshugsun, þar sem farið er yfir sjálfskönnun, markmið og starfsval. Vinnubókin skiptist í fimm kafla og í hverjum kafla eru settar fram spurningar, gerð er tilraun og loks draga nemendur saman niðurstöður. Kennslan byggir á uppgötvunarnámi sem hvetur nemendur til þess að afla sjálfir upplýsinga til að leita lausna eða draga eigin ályktanir út frá sinni upplýsingaöflun. Hverju verkefni fylgja kennsluleiðbeiningar ( grænn litur ) þar sem settar eru fram tillögur um skipulagningu kennslunnar. Nemendaverkefni ( blár litur ) eru í framhaldi hverju sinni. Aðalmarkmið vinnubókarinnar Könnun á atvinnulífinu eru að nemendur: – Öðlist skilning á tilgangi atvinnulífsins í þjóðfélaginu – Átti sig á fjölbreytni atvinnulífsins og fræðist um störf og starfgreinar – Kanni störf sem þeir þekktu ekki fyrir og ný starfssvið í atvinnulífinu Tilgangur umfjöllunar um atvinnulífið í þessu námsefni er að gefa nemendum betri forsendur en ella til að hugsa um atvinnulífið og mynda sér sjálfstæðar skoðanir um það. Þessi umfjöllun er liður í að auðvelda þeim sjálfum að mynda sér skoðanir um hvaða hlutverk þau geti tekið að sér í atvinnulífinu, m.ö.o. hvaða störf þau vilji búa sig undir. Í þessari vinnubók er áhersla lögð á könnun og flokkun. Leitast er eftir að nemendur tileinki sér eftirfarandi leiknimarkmið og að eftir að þeir hafa unnið verkefnin muni þeir: 1. Skilja að þarfir einstaklingsins og samfélagsins eru uppspretta vinnunnar. 2. Geta greint frá áhrifum uppfinninga á atvinnuþróun. 3. Skilja mikilvægi hvers starfs í samfélaginu. 4. Geta greint þrjá meginþætti sem einkenna hvert starf og noti þessa aðferð til að kanna betur heim atvinnulífsins. 5. Geta nýtt sér námsefnið í ákvörðunartöku í framtíðinni um framhaldsnám eða störf. Margir unglingar hafa haft allnokkur kynni af atvinnulífinu vegna sumarstarfa og sumir hafa átt þess kost að fylgjast með störfum sinna nánustu en tilgangurinn með þessari vinnubók er að nemendur geri sér skýra mynd af gagnverki atvinulífsins og heildarskipan þess.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=