Margt er um að velja
Inngangur kennara Margt er um að velja | 40202 | 3 Kynning á efninu Margt er um að velja – Náms og starfsfræðsla er ætlað nemendum í efstu bekkjum grunnskóla. Meginumfjöllunarefni þessara námsbókar er atvinnulíf og störf, skólakerfi og sjálfsþekking og er hluti af náms- og starfsfræðslu. Markmiðið með námsefninu er að nemendur öðlist færni í að velja nám og störf og rökstyðja val sitt út frá aðstæðum sínum. Leitast er við að vekja áhuga nemenda á að fræðast um menntakerfið og atvinnulífið. Jafnframt er stefnt að því að vekja áhuga nemenda á því hvar hæfileikar þeirra og áhugi fái best notið sín. Námsefnið á rætur að rekja til Laval-háskólans í Quebec í Kanada og var hluti af námsefnisflokknum Éducation des Choix . Efnið var þýtt og staðfært af Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur árið 1993 í þrjár vinnubækur með yfirheitinu Margt er um að velja . Árið 2004 voru tvær af þessum bókum sameinaðar, uppfærðar og endurútgefnar sem vefútgáfa, og árið 2019 var það sama gert við þriðju bókina. Samhliða því var 2004 útgáfan uppfærð og saman var þetta gefið út sem vinnubókin Margt er um að velja – Náms- og starfsfræðsla . Hefðbundin kennsla í náms- og starfsfræðslu byggist fyrst og fremst á upplýsingamiðlun. Í þessu námsefni eru ekki einungis veittar upplýsingar heldur er markmiðið að þær öðlist merkingu fyrir nemendum og verði þeim þannig leiðarljós í framtíðinni. Í kennslunni eru settar upp aðstæður sem gera nemandann virkan í að kanna forsendur fyrir vali á námi eða starfi og á þeim möguleikum sem bjóðast. Nemendur læra að átta sig á því hvernig farið er að við ákvarðanatöku, hvernig niðurstaða er fengin og hvað þarf að vera undanfari ákvörðunarinnar. Nemendur eru búnir undir það að taka ákvörðun um námsbraut eða starf af eigin rammleik. Þannig verða þeir ábyrgari fyrir eigin námi og námsframvindu. Uppsetning Vinnubókinni er skipt í tvo hluta. Fyrri hlutinn nefnist Könnun á atvinnulífi og er þar verið að einblína á einkenni og hlutverk starfa. Í seinni hluta vinnubókarinnar, Sjálfskoðun og starfshugsun , er m.a. farið yfir gildi nemenda, markmiðssetningu og kynbundna starfshugsun. Hver kafli hefur að geyma þrjá þætti: • Aðdraganda , þar sem viðfangsefni kaflans er kynnt. • Tilraun , þar sem nemendur skoða umhverfi sitt og meta með tilliti til þess hvar þeir falla inn í. • Niðurstöðu, þar sem framtíðarsýn nemenda og stefna er skerpt. Námsefninu má dreifa yfir tvær eða fleiri námsannir en mælt er með því að búið sé að fara yfir alla vinnubókina áður en nemendur senda inn umsókn um nám í framhaldsskóla. Lagt er til að nemendur dragi saman þær upplýsingar og niðurstöður sem fengist hafa í ferlinu og safni saman á einn stað, til dæmis í eins konar færnimöppu.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=