Margt er um að velja
Kennsluleiðbeiningar Margt er um að velja | 40202 | 12 2. VINNA OG UPPFINNINGAR Nemendur hafa nú séð að vinna þjónar m.a. þeim tilgangi að sinna þörfum bæði þjóðfélagsins og einstaklinga. Nú er komið að því að kanna aðra vídd vinnunnar sem snýr að uppfinningum, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Þessi hlið atvinnulífsins varpar ljósi á bæði hvernig er hægt að skapa ný störf og einnig að hægt sé að nýta eldri störf með nýjum hætti. Markmið Að nemendur komist að því að uppfinningar, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun verða ekki til fyrir tilviljun heldur vegna langana og þarfa manneskjunnar til að auka hæfni sína og breyta umhverfinu sér í hag. Verkefnalýsing Nemendur íhuga og skrá niður uppfinningar, vörur eða fyrirtæki sem þeim dettur í hug. Í sameiningu geta kennarar og nemendur farið yfir listana og bætt við. Hugmynd að hópavinnu gæti verið að hver hópur velji eitt atriði, vinni stutta heimildarvinnu í gegnum internetið og kynni fyrir bekknum hver saga eða þróun vörunnar eða fyrirtækisins var. Þar ætti að koma í ljós að það getur verið langt og flókið ferli að koma vöru eða nýju fyrirtæki á markaðinn. Dæmi um íslenskar vörur og fyrirtæki sem hafa sótt á markaði erlendis: – CCP games – Latibær – Lulladoll – Marel hf. – Siggi‘s skyr – Tulipop – Össur hf. Niðurstöður Að lokum hugleiða nemendur þær tæknibreytingar sem hafa orðið í heiminum síðastliðna áratugi og hvernig það hefur haft áhrif á atvinnulífið, t.d. með því að breyta störfum eða skapa ný störf. Þessi þróun hefur einnig áhrif á skólakerfið og breytingar verða eftir því sem tækninni fleygir fram. Nemendur svara síðustu tveimur spurningum. Að því loknu geta kennari og nemendur farið í sameiningu yfir hvað þau telja hafa valdið mestum framförum í skólakerfinu síðastliðin 10 ár. Hvað hefur t.d. breyst í skólastofunni eða í kennsluaðferðum? Voru spjaldtölvur, skjávarpar eða skýjadrif notuð í sama mæli fyrir 10 árum? Í seinni spurningunni, um þeirra eigin hugmynd, hafa þau frjálsar hendur og má þetta ýmist vera starf eða uppfinning sem þegar er til eða einhver ný hugmynd sem þau hafa í huga. Þetta er aðallega hugsað fyrir þau sjálf en þau eru þó hvött til að deila með bekknum.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=