Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar
97 TAUGAKERFIÐ STJÓRNAR LÍKAMANUM Keilur og stafir – skynfrumur augna Þegar ljósið hefur farið gegnum augasteininn heldur það áfram gegnum glerhlaupið , tæran og hlaupkenndan vökva. Ljósið fellur síðan á skynfrumur sjónunnar og kallar þar fram taugaboð. Boðin berast síðan eftir sjóntauginni til sjónsvæðisins í hnakkablaði heilans og þar er unnið úr boðunum og þau túlkuð. Við sjáum! Í sjónu augans eru tvær gerðir skynfrumna, keilur og stafir. Keilurnar greina liti, en stafirnir , sem eru margfalt fleiri en keilurnar, greina eingöngu svart og hvítt. Stafirnir eru miklu ljósnæmari en keilurnar. Í rökkri eru það bara stafirnir sem eru virkir og þess vegna skynjum við umhverfið þá að mestu leyti sem gráleita mynd. Í meiri birtu taka keilurnar við og þá skynjum við liti. Miðgrófin og blindbletturinn Skynfrumur eru flestar á því svæði sjónunnar sem heitir miðgróf (guli bletturinn). Þar eru margar milljónir keilna í þéttum hnappi. Þegar við beinum augunum að litlum fleti, til dæmis þegar við lesum, notum við miðgrófina og þannig fáum við skörpustu myndina. Ljósgeislar, sem falla utan við miðgrófina, gefa alls ekki jafn skarpa mynd. Á því svæði sjónunnar, þar sem sjóntaugin liggur út úr auganu, eru engar skynfrumur. Þar er því blindblettur augans. Við verðum hans ekki vör vegna þess hve lítinn hluta hann tekur á sjónunni og blindblettir beggja augna falla ekki saman. Í sjónunni eru keilur og stafir. Keilurnar skynja liti en stafirnir greina bara svart og hvítt. Stafirnir eru mun ljósnæmari en keilurnar. ÍTAREFNI Vöðvar valda samhæfðum augnhreyfingum Við getum hreyft augun í ýmsar áttir með hjálp vöðva sem tengjast þeim. Vöðvarnir sjá líka til þess að bæði augun hreyfast á sama hátt. Ef vöðvarnir starfa ekki rétt saman verður fólk tileygt eða rangeygt; augun horfa ekki bæði í sömu áttina. Þá verður annað augað yfirleitt ríkjandi og hitt víkjandi. Brýnt er að laga tileygð strax á unga aldri því að annars er hætt við að víkjandi augað detti alveg úr virkri notkun og nái aldrei að þroska með sér eðlilega sjón. Tileygð er oft meðhöndluð með gleraugum eða með því að setja lepp fyrir ríkjandi augað og þá neyðist heilinn til þess að nota„lata ‟ augað. Stundum þarf þó að ráða bót á þessu með skurðaðgerð. Keila Stafur
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=