Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

90 kvillar og sjúkdómar 5.3 Kvillar og sjúkdómar í taugakerfinu Hvernig er taugakerfið rannsakað? Læknar geta rannsakað taugakerfið með mörgum aðferðum. Þeir geta til dæmis fylgst með því hvernig taugabrautirnar starfa með því að rannsaka jafnvægið og mismunandi taugaviðbrögð . Hægt er að mæla rafvirkni heilans með til þess gerðu tæki, heila- rafrita , og fá fram heilarafrit. Með þessu tæki má sjá hvort rafvirkni heilans er afbrigðileg. Læknar geta enn fremur rannsakað vökvann sem umlykur heilann og mænuna. Grannri nál er þá stungið í neðri hluta mænunnar og svolítið af mænuvökva er sogað út. Læknar búa líka yfir tækni til þess að „kíkja“ inn í heilann. Þeir geta tekið sneiðmyndir af honum, annaðhvort með röntgengeislum eða með sérstakri tækni sem byggist á segulsviði (segulsneiðmyndun). Með slíkri tækni má jafnvel greina örlitlar breytingar í heila. Annars konar tækni er notuð til þess að rannsaka starfsemi heilans, til dæmis út frá súrefnisnotkun hans og blóðflæði um hann. Heiladauði Í íslenskum lögum er heiladauði það þegar alger stöðvun hefur orðið á starfsemi heila og heilastofns og hún getur ekki gengið til baka. Þá er sagt að viðkomandi maður sé heiladáinn . Þetta gerist yfirleitt eftir að hjartað er hætt að slá og öndun hefur stöðvast. Í sumum tilvikum getur fólk verið heiladáið þótt hjartað slái. Það getur til dæmis gerst ef maður hefur orðið fyrir heilaskaða sem versnar stöðugt og honum er haldið lifandi í öndunarvél. Nákvæmar rann­ sóknir á starfsemi heilans skera þá úr um það hvort hann er látinn. Segulsneiðmyndir sýna þunnar sneiðar af heilanum, mænunni eða öðrum líkamshlutum. Hægt er að mæla rafvirkni í heilanum með því að festa mörg rafskaut á höfuð manna. Þannig geta menn fengið fram heilalínurit. Hér er verið að mæla heilastarfsemina hjá ungri konu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=