Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

89 Heilinn þolir ekki þung högg Þótt heilinn sé vel varinn í höfuðkúpunni er ekki þar með sagt að við getum farið með hann eins og okkur sýnist. Heilinn er afar viðkvæmt líffæri og hann verður auðveldlega fyrir skaða, til dæmis af áfengi og eiturlyfjum. Skaði, sem verður vegna slysa, högga eða sparka, getur líka verið óbætanlegur. Í kvikmyndum og tölvuleikjum eru oft sýnd atriði þar sem fólk virðist þola hvað sem er. Sannleikurinn er sá að eitt þungt höfuðhögg getur auðveldlega dregið fólk til dauða. Munurinn á heilahvelunum er minni en menn töldu Áður töldu menn að mikill munur væri á því sem gerðist í hægra og vinstra heilahvelinu. Til dæmis var talið að stöðvar fyrir mál og tal væru eingöngu í vinstra heilahvelinu. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta er ekki svona einfalt. Málstöðvarnar eru til dæmis mun víðar í heilanum og finnast bæði í vinstra og hægra heilahveli. Þrátt fyrir allt er þó greinanlegur munur á heilahvelunum. Hjá flestum er vinstra hvelið virkast þegar þeir tala, lesa og reikna. Hægra hvelið er hins vegar ríkjandi í tengslum við list­ ræna skynjun og tónlist. Þessi tölvusneiðmynd er tekin neðan frá af báðum heilahvelunum. Heilinn starfar ekki eins og tölva Heilanum er oft líkt við mjög fullkomna tölvu. Þótt ýmis­ legt sé vissulega líkt er mun fleira sem greinir á milli. Heilinn er til dæmis miklu fremri öllum tölvum í því að fínvinna úr upplýsingum. Hann ræður við það vegna þess að hver taugafruma hefur þúsundir taugamóta og getur sent bæði hamlandi og örvandi merki til annarra taugafrumna. Heilinn er auk þess miklu betri en allar fullkomnustu tölvur í því að útiloka ónauðsynlegar upp­ lýsingar. Miklar rannsóknir og miklar framfarir þurfa að eiga sér stað áður en tölvur verða færar um að starfa á líkan hátt og mannsheilinn. Menn tala gjarna um gervigreind. Fram til þessa hefur bara tekist að búa til tölvulíkön sem líkja eftir starfsemi hjá tilteknum hópi taugafrumna. Það verður langt þangað til menn nálgast það að geta líkt eftir gríðarflóknu samstarfi allra milljarða taugafrumna heilans.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=