Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

88 Satt og logið um heilann Heili okkar er ótrúlegt og gríðarlega flókið líffæri sem við þekkjum ekki nema að hluta. Það er því ekki skrýtið að alls kyns sögur eða furðusagnir eru á kreiki um það hvernig hann starfar. Stórstígar fram­ farir í rannsóknum valda því að gömul sannindi verða úrelt og ný koma í stað þeirra. Það sem er talin vísindaleg staðreynd nú þarf ekki endi­ lega að standast eftir nokkur ár. Nýjar taugafrumur geta myndast í heila Allt fram undir lok 20. aldar töldu vísindamenn að nýjar tauga­ frumur gætu ekki myndast í heilanum. Á síðustu árum hefur hins vegar komið í ljós að í sumum hlutum heilans eru stofnfrumur sem geta fjölgað sér, líklega ævina á enda. Menn binda vonir við að uppgötvunin verði til þess að unnt verði að lækna sjúkdóma á borð við Parkinsons-sjúkdóm og elliglöp. Nú vita menn líka að taugafrumur geta myndað nýjar teng­ ingar, taugamót, sem geta skráð nýjar hugsanir eða nýja reynslu. Á þennan hátt lagar heilinn sig að nýjum aðstæðum. Hann getur einnig gert við ýmsar skemmdir sem hann verður fyrir, þannig að glataðir hæfileikar endurheimtast, að minnsta kosti að hluta. Við getum beitt ýmiss konar„heilaleikfimi“ til þess að þjálfa upp ýmsa hæfileika og bæta þá. Við notum allan heilann Oft hefur verið sagt að við notum aðeins um tíunda hluta af þeim hæfileikum sem heilinn býr yfir. Það er furðuleg staðhæf­ ing. Í heilanum eru engir„óþarfir“ hlutar sem eru ekki notaðir. Heilinn er sístarfandi, en skiljanlega eru ekki allir hlutar hans virkir í einu. Í heilanum gerist margt ósjálfrátt sem við erum ekki með­ vituð um. Heilinn hefur til dæmis ótrúlegan hæfileika til þess að flokka upplýsingar og útiloka þær sem eru ónauðsynlegar. Það gerist án þess að við tökum eftir því. Við verðum þess vegna bara vör við brot af þeim skynhrifum sem við verðum fyrir. Ef við sætum uppi með allt, sem skynfærin greina, myndum við skynja umheiminn sem óslitið öngþveiti og allsherjarringulreið. Í BRENNIDEPLI

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=